Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skrifað undir samning við sjálfseignarstofnunina Almannaróm um rekstur miðstöðvar máltækniáætlunar til ársins 2022. Markmið máltækniáætlunarinnar er skýrt, að tryggja að hvers kyns tæki og tól tali og skilji íslensku og tungumálinu verði þar með forðað frá stafrænum dauða vegna yfirburðastöðu enskunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins.
„Máltækniáætlunin er eitt mikilvægustu skrefanna sem við stígum nú til þess að tryggja betur framtíð íslenskunnar og þar með menningu okkar og sjálfstæði,“
sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra við undirritunina.
„Það er breiðfylking að baki Almannarómi, að stofnuninni standa háskóla- og rannsóknarstofnanir, fyrirtæki og félagasamtök sem öll brenna fyrir þetta brýna verkefni að tryggja að íslenskan standi jafnfætis öðrum tungumálum í síbreytilegum tækniheimi. Markmið okkar er að stuðla að aðgengi almennings og atvinnulífs að nauðsynlegri máltækni svo framtíðin hljómi vel á íslensku. Næstu skref verða að móta okkur starfsáætlun, ráða framkvæmdastjóra og skipa fagráð. Við erum mjög spennt að spyrna þessu verkefni af stað.“
sagði Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, stjórnarformaður Almannaróms.
Meðal verkefna sem ráðist verður í er að kynna möguleika máltækni fyrir fyrirtækjum og stofnunum og koma á samstarfi við erlend fyrirtæki sem þróa máltæknilausnir og fylgjast með möguleikum á fjölþjóðlegu þróunarsamstarfi í máltækni.
„Markmið máltækniáætlunarinnar er m.a. að Markmið íslensku verði að finna í öllum tækjabúnaði og í hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims. Tími til stefnu er naumur vegna þess að gervigreind og máltækni í heiminum þróast á ógnarhraða og mikilvægt að Ísland sitji ekki eftir. Samningurinn við Almannaróm er mikilvægur áfangi en innan Almannaróms koma saman fjölbreyttir aðilar sem leggja sitt af mörkum til að tryggja að íslenskan glatist ekki,“
segir í tilkynningu.