Stoðdeild ríkislögreglustjóra, sem sér um undirbúning og framkvæmd brottvísunar útlendinga af landinu, vísaði alls 549 manns af landi brott árið 2017, eða 45 manns á mánuði að meðaltali. Beinn kostnaður ríkissjóðs vegna flutninganna nam 62 milljónum króna, samkvæmt ársskýrslu ríkislögreglustjóra fyrir árið 2017. Morgunblaðið greinir frá.
Alls 155 manns voru fluttir samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, í 104 ferðum. Alls 293 voru fluttir á vegum Frontex í 19 ferðum, en stofnunin endurgreiðir allan, eða meginhluta kostnaðar þeirra ferða, utan vinnulauna lögreglumanna. Aðrir einstaklingar voru 94 sem fluttir voru úr landi, í 72 ferðum.
Alls 779 lögreglumenn tóku þátt í slíkum ferðum árið 2017, en í mörgum tilfellum er um sömu lögreglumennina að ræða. Aðrir starfsmenn í slíkum ferðum er starfsfólk Mannréttindastofu, sem og túlkar.
Heildarkostnaður, fyrir utan launakostnað og endurgreiðslur, er 291 milljón. Endurgreiðslur námu um 229 milljónum og því beinn kostnaður ríkissjóðs alls 62 milljónir.