Mynd dagsins er af Davíð Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins. Myndina birtir Marta María Jónasdóttir, sem sér um Smartlandið á mbl.is, á Instagram.
Myndin sýnir glaðværan og brosandi ritstjóra í kaffipásu, virðulegan og vel til fara venju samkvæmt.
Áletrunin á kaffibollanum setur myndina þó í spaugilegt samhengi. Vissulega er ekki fallegt að kætast yfir erfiðleikum annarra, en ólíklegt verður að teljast að áletrunin endurspegli tilfinningar ritstjórans, þó svo gárungar haldi því fram að leiðarar og Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins bæru þess ákveðin merki.
„Guð hvað mér líður illa“ var heitið á safnsýningu Ragnars Kjartanssonar í Listasafni Reykjavíkur í fyrra og er áletrunin og bollinn væntanlega tengd þeirri sýningu.