Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins segir að tillögur Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra til að leysa vanda sauðfjárbænda vera plástur á sár sem ekki grær.
Þorgerður Katrín kynnti tillögur sínar um aðgerðir vegna yfirstandandi vanda í sauðfjárrækt í gær, miða tillögurnar að því að greiða bændum fyrir að hætta sauðfjárrækt eða draga úr henni, fram kom að kostnaður ríkissjóðs vegna tillagnanna í ár verði að minnsta kosti 650 milljónir króna.
Sigurður Ingi segir í grein í Fréttablaðinu í dag að það skorti stjórntæki til að taka á birgðavandanum, umframmagn af kjöti sé enn til staðar og sláturtíð hafin, heimili í sauðfjárrækt munu því ekki fá tekjur fyrir útlögðum kostnaðir á meðan laun annarra hækka um 30-35%:
Afleiðingarnar geta orðið fjöldagjaldþrot hjá ungum bændum með börn sem um leið sjá fram á að missa heimili sín, þar sem þau eru veðsett. Offramboð á jörðum, afleidd störf í matvælaframleiðslu munu hverfa og byggðirnar tæmast,
segir Sigurður Ingi. Segir hann að ríkisstjórnin þurfi að hlusta á lausnir til að leysa birgðavandann:
Sandkassaleik ráðherra Viðreisnar með landbúnaðarráðherra í broddi fylkingar verður að stöðva. Forsætisráðherra sem hefur sagt að í gildi sé búvörusamningur, og það standi ekkert annað til en að stjórnvöld standi við þann samning, verður að stíga fram og tryggja stuðning ríkisstjórnarinnar sem allra fyrst.