Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir það að bjóða þremur vinstrimönnum og einum miðjumanni að ræða um norsku kosningarnar dæmi um furðulega einstefnu sem verði sífellt algengari í Háskóla Íslands. Segir Hannes á Fésbók að sömu einstefnu megi finna á málstofu Mobilities and Transnational Iceland um nýfrjálshyggju í september þar sem aðeins sé boðið upp á fyrirlestur vinstrimanns.
Á fundi Alþjóðamálastofnunar um norsku kosningarnar tala þrír einstaklingar yst til vinstri (framkvæmdastjóri Vinstri-grænna, blaðamaður á Klassekampen og formaður Ungra pírata) og einn á miðjunni (var í Frjálslynda flokknum sáluga á Íslandi). Hér er annað dæmi um hina furðulegu einstefnu, sem er að vera sífellt algengari í Háskólanum. Allir vita, hvað þessi kór mun syngja saman, og engin rödd mun hljóma öðru vísi,
segir Hannes. Undir það taka margir, þar á meðal Kjartan Magnússon borgarfulltrúi og Gústaf Níelsson einn stofnanda Frelsisflokksins. Í morgun kvartaði svo Hannes undan því að aðeins andstæðingar nýfrjálshyggju tali á málstofu Mobilities and Transnational Iceland um nýfrjálshyggju og alþjóðlegan vinnumarkað:
Háskólinn heldur áfram einstefnunni. Aðeins eru boðnir fram fyrirlesarar af vinstri væng. Í kynningu á þessum er sagt: „Guy Standing er breskur hagfræðingur við Lundúnarháskóla sem er þekktur fyrir gagnrýni sína á kapítalisma og viðtekna efnahagslega hugsun.“ Hann hefur með öðrum sömu skoðanir og 98% samkennara minna og 5,7% þjóðarinnar.
„Það er rétttrúnaður í Háskólanum“
Segir hann rétttrúnað ríkja í háskólanum:
Ég er aðeins að biðja um, að raddir annarra fái líka að heyrast. Það er rétttrúnaður í Háskólanum eins og svo mörgum öðrum háskólum.
Unnur Dís Skaptadóttir prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands og einn skipuleggjenda málstofunnar segir í samtali við Eyjuna að kvartanir Hannesar komi á óvart. Á málstofunni verði fyrirlestur Guy Standing, erindi frá tveimur öðrum og svo umræður í sal þar sem frelsi sé til að hafa allar skoðanir á málefninu:
Það verður opið fyrir umræður, þetta er alveg opið og allir geta komið og tjáð sig. Þetta verður vettvangur til að tala saman. Fólk er með ólíka sýn í háskólanum og það bara er þannig.