Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fara fram á að opinber rannsókn verði gerð vegna milljarða tjóns sem orðið hefur á húsi Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins mun leggja fram tillögu þess efnis á fundi borgarstjórnar á þriðjudaginn, fram kemur í tillögunni að við rannsóknina verði leitast við að leiða í ljós orsakir tjónsins og hvaða lærdóm megi draga af málinu til framtíðar:
Athugað verði hvernig staðið var að byggingu hússins á sínum tíma og hvernig staðið hefur verið að viðhaldi þess eftir að það var tekið í notkun. Meðal annars verði kannað hvernig pólitískar ákvarðanir voru teknar um byggingu hússins og stækkun þess á framkvæmdatíma. Þá verði athugað hvernig ákvarðanir voru teknar um einstaka þætti málsins, t.d. hönnun, byggingaraðferðir, efnisval o.s.frv,
segir í tillögunni. Einnig verði fjallað um orsakir þess að byggingarkostnaður fór langt fram úr áætlunum. Einnig verði birtur heildarkostnaður við byggingu hússins og allur kostnaður vegna viðhalds og endurbóta frá því það var tekið í notkun. Þá verði könnuð lagaleg staða Orkuveitunnar í málinu og hugsanlegur bótaréttur vegna umrædds tjóns.