„Ef ríkisstjórnin sem tók við árið 2009 hefði staðið við þau samkomulög sem verkalýðshreyfingin var búin að ganga frá samhliða kjarasamningum 2006 og 2008 þá væri persónuafslátturinn ekki 52.907 kr. heldur 60.997 kr. á mánuði og munar hér á ári tæpum 100 þúsund krónum. Það er morgunljóst að auknar ráðstöfunartekjur upp á 100.000 kr. á ári til handa þeim sem eru á lökustu kjörunum myndu klárlega hafa jákvæð áhrif.“
Þetta segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness í pistli á Pressunni, segir hann niðurstöður nýrrar skýrslu ASÍ, þar sem kom fram að skattbyrði hefði aukist mest hjá þeim tekjulægstu, alls ekki koma á óvart:
Þetta kemur mér alls ekki á óvart enda liggur fyrir að ætíð er níðst mest á þeim tekjulægstu og nægir að nefna hvernig farið hefur verið með þróun á persónuafslættinum á liðnum árum og áratugum,
segir Vilhjálmur þar sem hækkun persónuafsláttar hefur langmesta jákvæða þýðingu hlutfallslega fyrir þá sem eru með lökustu kjörin. Frá því að ríkisstjórnin ákvað árið 1990 að afnema verðtryggingu á persónuafslættinum hefur það verið baráttumál verkalýðshreyfingarinnar, það tókst með samningum á árunum 2006 og 2008 en við það var ekki staðið árið 2009. Persónuafslátturinn var svo verðtryggður árið 2012. Vilhjálmur segir dapurlegt að verða vitni af því hvernig komið sé fram við alþýðu landsins svo áratugum skipti:
En margir muna eftir Ólafslögunum sem sett voru árið 1979 þegar verðtryggingunni var komið á sparifé, lánsfé og laun. Í byrjun árs 1983 var ekki mikið mál fyrir þáverandi stjórnvöld að afnema verðtryggingu á launum með einu pennastriki. En að afnema verðtryggingu á lánsfé til heimila, það hefur aldrei komið til greina, hvorki nú né á árum áður, enda virðist það vera ríkjandi stefna stjórnvalda að styggja ekki fjármagnsöflin.
Gagnvart heimilunum séu stjórnvöld hins vegar aldrei tilbúin að afnema verðtryggingu eða taka á ofurvöxtum:
Já, það hefur ekki vafist fyrir ríkisstjórnum að afnema hér verðtryggingu á persónuafslættinum með gríðarlegri skerðingu fyrir launafólk og þá sérstaklega þá tekjulægstu svo ekki sé talað um afnám verðtryggingar launa á sínum tíma. En að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingum heimilanna og einstaklinga, nei það kemur ekki til greina!
Við þessari síendurteknu aðför íslenskra stjórnvalda og fjármálakerfisins að íslensku launafólki og íslenskum heimilum segi ég: sveiattan!