„Við þurfum að muna að krónuvinir eru um leið hávaxtavinir. Gjaldmiðill sem leggur fjárhag heimila og fyrirtækja í rúst á víxl er ekki góður gjaldmiðil.“
Þetta segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra á Fésbókarsíðu sinni og vísar til greinar Jónu Sólveigar Elínardóttur varaformanns Viðreisnar í Fréttablaðinu í gær. Þar sagði Jóna Sólveig að með því að festa íslensku krónuna við evru í gegnum myntráð þá sé hægt að ná fram stöðugleika til að lækka vexti og losna undan verðtryggingunni:
Á meðan við búum við sveiflukennda krónu verður verðtryggingin ill nauðsyn, bæði fyrir lánveitendur en ekki síður fyrir lántakendur sem vegna hennar njóta viðráðanlegra afborgana um hver mánaðamót. Þess vegna þarf að ráðast í nauðsynlegar breytingar á peningastefnu landsins sem fela í sér löngu tímabæra múlbindingu íslensku krónunnar, eins og við í Viðreisn höfum statt og stöðugt boðað.
sagði Jóna Sólveig. Benedikt tekur undir með henni og segir það bestu leiðina til þess að losna við verðtryggingu og háa vexti sé að festa krónuna við evru í gengum myntráð.