Kristinn H. Gunnarsson skrifar:
Veiðifélag Langadalsár greiddi Hafrannsóknarstofnun fyrir skýrslu um vöktun á stofnum lax og bleikju í Langadalsá við Ísafjarðardjúp árið 2016 sem kom út í janúar 2017. Sigurður Guðjónsson, forstjóri stofnunarinnar staðfestir þetta í svari við fyrirspurn blaðsins Vestfirðir. Hann kvaðst ekki geta svarað því hve há greiðslan væri þar sem hann væri í sumarfríi. Ekki hafa enn fengist svör við spurningunni þrátt fyrir ítrekaða eftirgangsmuni.
Í skýrslu starfsmanna stofnunarinnar er gerð grein fyrir rannsóknum sem fram fóru á stofnum lax og bleikju sem fram hafa farið um árabil. Í niðurlagi skýrslunnar segir:
Vatnasvæði Langadalsár/Hvannadalsár ásamt Laugardalsá eru öfl ugustu veiðiárnar við Ísafjarðardjúp. Nú liggja fyrir stórfelld áform um laxeldi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Miklar líkur eru til að laxeldi í sjókvíum hafi neikvæð áhrif á laxastofna því fiskar munu ætíð sleppa úr haldi í einhverjum mæli í sjókvíaeldi, og þar með hluti þeirra í Langadalsá. Það leiðir til mengunar strandsvæða, sníkjudýra og erfðablöndunar eldislaxa af norskum uppruna við náttúrulega fiskstofna. Mikilvægt er að séð verði til þess að umfang og skipulag mögulegs eldis verði með þeim hætti að tilveru náttúrulegra stofna laxfiska á svæðinu sé ekki stefnt í hættu.
Þetta álit er ekki í samræmi við tilgang rannsóknarinnar en er athyglisvert í ljósi þess að Hafrannsóknarstofnun er fengin sem óháður aðili til þess að leggja fræðilegt áhættumat á mögulegrar erfðablöndun milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Í áliti stofnunarinnar hálfu ári seinna frá því í júlí 2017 segir:
í ljósi núverandi þekkingar er lagt til að ekki verði leyft eldi í Ísafjarðardjúpi vegna mögulegra mikilla neikvæðra áhrifa á laxastofna í Djúpinu.
Stofnunin gefur því út sama álit og starfsmenn hennar settu fram hálfu ári fyrr og stofnunin fékk greitt fyrir frá hagsmunaaðila.
Hafrannsóknarstofnun og veiðimálastofnun voru sameinaðar í fyrra undir hatti Hafrannsóknarstofnunar og forstjóri Veiðimálstofnunarinnar varð forstjóri hinnar nýju stofnunar. Nánin tengsl hafa verið um langt árabil milli Veiðimálastofnunar og veiðifélaga laxveiðiáa. Þannig hefur einn höfunda skýrslunnar um Langadalsá frá janúar 2017 unnið fyrir Veiðifélagið allt frá 1985.
Starfsmenn Veiðimálsstofnunar og þar með talinn núverandi forstjóri Hafrannsóknarstofnunar hafa ítrekað tekið til varna fyrir stangveiðihagsmuni og vísað til efnahagslegrar þýðingar atvinnugreinarinnar. Til dæmis lagði Sigurður Guðjónsson, sem forstjóri Veiðimálastofnunar mikla áherslu á þetta í ársskýrslu Veiðimálastofnunar frá 2012. Sama er upp á teningnum í fræðilega áhættumatinu sem á að einskorðast við mat á hættu á erfðablöndun villts lax við eldislax. Þar er dregið sérstaklega fram efnahagsleg þýðing stangveiðanna á bls 9 í skýrslunni:
Bein verðmæti veiðiréttinda í íslenskum laxveiðiám eru hins vegar metin á 3-4 milljarðar króna að núvirði og heildarverðmætasköpun með afleiddum, óbeinum áhrifum (gisting, veitingasala o.fl.) er metin í kringum 15-20 milljarðar króna á ári að núvirði
og
Með þessum reiknikúnstum má því áætla að hver veiddur íslenskur lax skapi verðmæti sem nema u.þ.b. 250 þúsund íslenskum krónum, þó vissulega komi stór hluti þessara verðmæta úr vösum íslenskra veiðimanna og fyrirtækja.
Ekki er gerð nein tilraun til þess að meta efnahagslegu áhrifin af laxeldi í sjó til þess að hafa samanburð milli þessara tveggja kosta og jafnvægi í skýrslunni. Þetta er stórfurðuleg staðhæfing í áhættumatsskýrslu Hafrannsóknarstofnunar þar sem aðeins var verið að meta erfðafræðilega þætti en ekki efnahagslega. Efnahagslegt mat er allt annað mál og um þarf að gera sérstaka skýrslu. Þá skýrslu geta starfsmenn Hafrannsóknarstofnunar ekki unnið af augljósum ástæðum.
En starfsmenn stofnunarinnar eru líka vanhæfir til þess að gefa út álit á sambúð laxeldis og laxveiða vegna náinna tengsla, þar með talið fjárhagslegra, fyrrum starfsmanna Veiðimálastofnunar við veiðifélögin um langt árabil. Sérstaklega er Sigurður Guðjónsson, forstjóri vanhæfur til þess að taka þátt og stýra gerð áhættumatsins. Það grefur undan trúverðugleika Hafrannsóknarstofnunar að þráast við að gera grein fyrir greiðslum frá veiðifélagi Langadalsár til Hafrannsóknarstofnunar og það mega allir lesa í skýrslum stofnunarinnar að ítrekað eru sett fram þau „sérfræðiálit“ sem greiðendur vilja helst heyra. Vera má að sérfræðingar gömlu Veiðimálastofnunar og hagsmunaaðilar í stangveiði séu sammála um fiskeldi í sjó, en sérfræðingarnir geta ekki samtímis verið verktakar hjá hagsmunaaðilununum og gefið stjórnvöldum trúverðuga ráðgjöf. Fjárhagslegu tengslin koma í veg fyrir það. Álit Hafrannsóknarstofnunar verður því að taka með miklum fyrirvara.
Birtist fyrst í Vestfjörðum. Smelltu hér til að lesa blaðið.