Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Framsóknarflokksins segir að stjórnmálamenn, embættismenn, fjölmiðlar, fræðimenn og aðrir sem hafi það hlutverk að ræða lausnir og stefnu, verði að þora að ræða aukinn straum flóttamanna. Ef ekki þá sé verið að eftirláta öfgamönnum lausnirnar og umræðuna í málinu. Í grein sem Sigmundur Davíð skrifar í Viðskiptablaðið í dag segir hann að heimurinn standi frammi fyrir þremur stórum úrlausnarefnum sem hafi áhrif á lífskjör fólks, áhrif alþjóðavæðingar, áhrif hátæknibyltingarinnar og straumur fólks frá fátækari löndum:
Undanfarin misseri höfum við heyrt fréttir af því að aldrei hafi eins margir verið á flótta í heiminum og nú. Hvernig má það vera ef heimurinn hefur aldrei verið jafn friðsamur og velmeg un aldrei eins almenn? Ástæðan er sú að þróun samfélaga með aukinni hagsæld dregur ekki úr fólksflutningum, hún ýtir undir þá,
segir Sigmundur. Segir hann það eðlilegt að fólk sæki í betri kjör og því muni það halda áfram:
Sú þróun hjálpar hins vegar ekki raunverulegum flóttamönnum. Straumur flóttamanna og annars förufólks til Evrópu er farinn að valda verulegri togstreitu innan, og á milli-, Evrópulanda og átökin ágerast. Á þessu ári hefur stærsti hópurinn komið yfir hafið frá Líbíu til Ítalíu. Flestir sem koma þá leið eru ekki að flýja stríð heldur að leita betri lífskjara en eiga þó að baki langt og hættulegt ferðalag. Nígeríumenn eru fjölmennastir en næst á eftir kemur fólk frá Bangladesh.
Því meira sem hagur fátækustu landanna vænkist því fleiri muni eygja tækifæri til að yfirgefa þau, á sama tíma sé spáð gífurlegri fólksfjölgun í þróunarlöndunum, til dæmis er spáð að við lok aldarinnar verði Níger orðið tvöfalt fjölmennara en Rússland. Sigmundur segir að til að byrja með þurfi að móta stefnu:
Ef stjórnmálamenn, embættismenn, fjölmiðlar, fræðimenn og aðrir sem hafa það hlutverk að ræða lausnir, horfa til framtíðar og móta stefnu þora ekki að ræða stærstu úrlausnarefni samtímans eru þeir að eftirláta öfgamönnum umræðuna og lausnirnar. Ef það gerist er ólíklegt að heimurinn haldi áfram að batna.