Björgvin G. Sigurðsson skrifar:
Við andlát og útför Helmuts Kohl, fyrrverandi kanslara Þýskalands, rifjaðist rækilega upp sú stórkostlega hugsjón sem býr að baki stofnunar Evrópusambandsins. Það þurfti pólitíska risa, frá hægri og vinstri, á borið við kanslarann og Francois Mitterrand, fyrrum forseta Sósíalistaflokksins í Frakklandi, til að hrinda henni að fullu í framkvæmd.
Friður, framfarir og samvinna skyldu binda álfuna saman um eilífð, sem áður hafði borist á banaspjótum, með þvílkum ógnar afleiðingum að heimurinn verður aldrei samur.
Hinsvegar þurfti pólitíska loddara og lýðskrumara einsog Boris Johnson og Michael Farage til að blekkja Breta til að kjósa sig út úr sambandinu, með pólitískum og efnahagslegum skelfingum sem munu vara í mörg ár. Mögulega þar til þjóðinni gefst kostur á að segja hug sinn á ný, þegar samkomulag um útgönguna liggur fyrir.
Stofnun Evrópusambandins er einhver merkilegasti stjórnmálaatburður sögunnar. Endalok blóðugra styrjalda sem kostuðu heilar kynslóðir lífið blasti nú við. Við tók tímabil ótrúlegra félagslegra og efnahagslegra framfara.
Ísland mætti nútímanum þegar EES samningurinn varð að veruleika, vegna framgöngu Alþýðuflokksins fyrir tæpum aldarfjórðungi. Römm andstaða innan allra hinna flokkanna bergmálar enn og vaknaði upp þegar stóð til að gefa þjóðinni kost á að kjósa um fulla aðild að sambandinu með aðildarumsókn Alþingis árið 2009. Í stað þeirrar gölluðu og andlýðræðislegu auka-aðildar að ESB sem EES.
Hatrömm andstaða einangrunarsinna hafði betur. Í janúar 2013 var viðræðunum illu heilli skotið á frest. Það voru örlagarík mistök ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vg. Flokkur forsætisráðherra átti hiklaust að ganga úr samstarfinu og flýta kosningum sem því nam. Þess í stað sat Samfylkingin áfram í stjórn, löskuð í máli sem flokkurinn hafði lagt allt undir í.
Paradís var skotið á frest. Það hlé mun vara í nokkur ár, eða þar til ný og framsýn kynslóð stjórnmálamanna tekur keflið og klárar málið sem okkur mistókst að ljúka. Mesta hagsmunamál Íslendinga á síðari tímum.
Kynslóð nýrra foringja á borð við þá Kohl, Mitterrand og Willy Brandt, Þýskalandskanslara, sem tryggðu Evrópu þann frið og fordæmislausu velmegun á öllum sviðum, sem við njótum nú sjö áratugum frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.