Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra hefur tekið ákvörðun varðandi stöður skólameistara Menntaskólans í Reykjavík, Fjölbrautaskólans við Ármúla, Framhaldsskólans á Húsavík og Menntaskólans á Ísafirði. Hefur Hildur Halldórsdóttir settur skólameistari MÍ tímabundið í eitt ár vegna námsleyfis Jóns Reynis Sigurvinssonar og Herdís Þuríður Sigurðardóttir hefur verið sett í embætti skólameistara til eins árs á Húsavík.
Stöður skólameistara við Fjölbrautaskólann í Ármúla og Menntaskólans í Reykjavík hafa verið auglýstar með umsóknarfresti til 8. ágúst næstkomandi. Ólafur H. Sigurjónsson gegnir starfi skólameistara FÁ þar til ráðið hefur verið í stöðuna og Yngvi Pétursson gegnir starfi rektors MR.
Kristján Þór hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir seinagang og vegna frétta af skoðun ráðuneytisins um að sameina FÁ og Tækniskólann, en fram kom í gær að ekkert yrði af sameiningunni í bili.
Svandís Svavarsdóttir þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi ráðherra segir Kristján sýna lítilsvirðingu með seinaganginum:
Menntakerfið bíður skaða af því að Sjálfstæðismaður situr í ráðuneyti menntamála. Háskólastigið í vanda, framhaldsskólinn býr við þröngan kost og nú má sjá hvernig lítilsvirðing og áhugaleysi ráðherrans kemur skýrt fram í því að staða rektors MR hefur enn ekki verið auglýst þótt aðeins mánuður sé í að kennsla hefjist,
segir Svandís á Fésbók í dag, hún segir Sjálfstæðismenn ekki treystandi fyrir samfélaginu:
Það er alvarlegt ef skaðinn verður varanlegur. Þessu fólki er ekki treystandi fyrir samfélaginu. Það kemur sífellt skýrara í ljós.