Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Jón Trausti Reynisson skrifa:
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari og verjandi manns sem nýverið hlaut uppreist æru eftir kynferðisbrot gegn fimm unglingsstúlkum, færir fram ósannar ávirðingar á hendur Stundinni í viðtali sem birt er við hann á vefmiðlinum Eyjunni.
Jón Steinar lætur að því liggja að hann hafi verið sakaður um barnagirnd í umfjöllun um ábyrgð í kynferðisbrotamálum. Hvergi í umfjöllun Stundarinnar er með nokkrum hætti vísað til slíkra hvata. Í víðtækri umfjöllun um málið í síðasta tölublaði Stundarinnar var meðal annars farið yfir sérálit og mildandi áherslur Jóns Steinars í kynferðisbrotamálum eftir að hann var skipaður hæstaréttardómari fram yfir aðra umsækjendur sem metnir voru hæfari, sem og þá vörn Jóns Steinars að umbjóðandi hans hafi verið beittur órétti í umræðu um veitingu uppreistar æru.
Í viðtalinu fer Jón Steinar fram á fyrirgefningu þolenda í málinu og almennings í garð umbjóðenda hans, gerandans, í málinu. Gagnrýni á slíkan málflutning og á tilfærslu ábyrgðar frá gerendum í kynferðisbrotamálum jafngildir með engum hætti ásökun um barnagirnd.
Innistæðulausar og ósannar ásakanir Jóns Steinars bera vott um alvarlegan dómgreindarbrest og/eða sterkan vilja til að afvegaleiða umræðuna um ábyrgð í kynferðisbrotamálum.
Í umfjöllun Stundarinnar var sérstaklega beint sjónum að þeirri stöðu að enginn innan íslenska stjórnkerfisins hefur tekið ábyrgð á þeirri aðgerð og ákvörðun að sæma dæmdan kynferðisbrotamann óflekkuðu mannorði. Slíkt rof í ábyrgðaruppbyggingu samfélagsins kallar á umræðu og getur kostað óvissu og ósætti hjá þolendum í kynferðisbrotamálum. Óskandi er að í slíkri samfélagsumræðu geti aðilar málanna sem og fjölmiðlar lagt sitt af mörkum að byggja málflutning á staðreyndum fremur en dreifingu ósannra ávirðinga.
Umrædd ummæli Jóns Steinars eru eftirfarandi:
Ég hef mátt lesa það í þessum ritsmíðum þessara rithöfunda í bloggheiminum og meira að segja á einhverjum fjölmiðlum sem gefnir eru út, Stundin heitir einn þeirra, að ég sé eitthvað varhugaverður maður út af því að ég hef fært fram þennan boðskap. Það er eins verið að það sé verið að reyna að tengja mig persónulega við einhverjar annarlegar hvatir á því sviði sem hér er um að ræða. Ég hef slíka skömm á því að fólk, menn, skuli grípa til slíkra hluta. Þetta er auðvitað ekki samboðið nokkrum manni og síst af öllu einhverjum sem þykjast vera að gefa út einhverja fjölmiðla.
Höfundar eru ritstjórar Stundarinnar