Morgundagur, útgáfufélag Fréttatímans, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta og verður skiptafundur haldinn þann 14.september næstkomandi. Þorsteinn Einarsson hrl. hefur verið skipaður skiptastjóri.
Skuldir Fréttatímans nema yfir 200 milljónum króna samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Stærstu kröfuhafarnir eru Vogabakki ehf., Michael Jenkins og Gunnar Smári Egilsson, hver með um 40 milljóna króna kröfu. Vogabakki, sem er í eigu Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar, seldi 36% hlut sinn í blaðinu í janúar. Dexter ehf., félag Sigurðar Gísla Pálmasonar, á svo um 25 milljón króna kröfu í Morgundag.
Útgáfufélagið skuldar starfsmönnum rúmlega 5 milljónir króna í laun og um 20 milljónir króna í launatengd gjöld, en í vor var greint frá því að verktakar hefðu ekki fengið greidd laun í nokkra mánuði og að ekki hafi verið staðið skil á lífeyrisgreiðslum starfsmanna frá því fyrir áramót.