Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir að sér hafi orðið óglatt við að lesa fréttir um bónusgreiðslur stjórnenda LBI, sem heldur utan um eignir gamla Landsbankans. Líkt og greint var frá í morgun munu stjórnendurnir skipta með sér rúmlega 370 milljónum króna í bónusgreiðslur vegna skuldauppgjörs Landsbankans níu árum á undan áætlun.
Sjá frétt: Fá rúmlega 370 milljónir í bónusgreiðslur
Bónuskerfið var virkjað í fyrra til að búa til hvata til að hámarka virði óseldra eigna og þar með endurheimtur kröfuhafa. Í frétt Markaðarins er greint frá því að stjórnendurnir fjórir hafi þó enga aðkomu að endurgreiðslu Landsbankans þrátt fyrir að hver fái rúmlega 90 milljónir króna í bónus, því það hafi verið hagsmunir Landsbankans að flýta endurgreiðslunni til að losna við fjármagnskostnað.
Nýverið gagnrýndi Ragnar Þór Kjararáð harðlega, í opnu bréfi sem hann skrifaði með Vilhjálmi Birgissyni formanni VLFA, sagði að með afturvirkum hækkunum væri Kjararáð að leggja línurnar í komandi kjaraviðræðum. Við fréttirnar af bónusgreiðslum stjórnenda LBI í dag sagðist hann hreinlega hafa orðið óglatt:
Fjórir stjórnendur eignarhaldsfélags gamla Landsbankans LBI, hafa fengið bónusgreiðslur sem nema á bilinu 350-370 milljónum króna. Bónuspotturinn getur þó farið í 2 milljarða gangi ákveðnar forsendur eftir. Manni verður hreinlega óglatt við að lesa svona fréttir. Hversu langt geta stjórnvöld og fjármálakerfið gengið á umburðarlyndi og þrælslund almennings?