Í dag var birtur nýr Þjóðarpúls Gallup þar sem kannaður er stuðningur við stjórnmálaflokka og kemur þar margt forvitnilegt í ljós, meðal annars að stuðningur við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er einungis 37%. Alls voru 2870 manns í úrtaki, valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup en svarhlutfall var 56,6%.
Spurt var hvaða flokk fólk myndi kjósa ef gengið væri til Alþingiskosninga í dag. Alls nefndu 80,9% flokk, 10,2% neituðu að taka afstöðu og 8,9% sögðust ætla að skila auðu eða kjósa ekki.
Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mests fylgis eða 27,5% og eykst fylgi hans um eitt prósentustig milli kannanna. Þar næst koma Vinstri grænir með 21,5% en voru áður með 24% og er sá flokkur með mesta fylgistapið milli mánaða.
Þriðji stærsti flokkurinn eru Píratar með 14,2% fylgi og hækka um 1 prósentustig milli kannanna. Þar næst kemur Framsókn með 11,3% fylgi og stendur nánast í stað. Samfylkingin nýtur stuðnings 9,2% þjóðarinnar og stendur í stað.
Hinir tveir ríkisstjórnarflokkarnir, Viðreisn og Björt framtíð mælast með annars vegar 5,6% fylgi og hins vegar 3,3% og standa báðir í stað milli mánaða.
3,8% segjast styðja Flokk fólksins sem ekki hefur neina þingmenn, fleiri en styðja Bjarta framtíð. Aðrir flokkar voru nefndir að um það bil 4% svarenda, þar af nefndu 2% Dögun.