Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir skólpmálið í Reykjavík vera einn fáránlegasta pólitíska farsa sem um getur. Segir hann á Fésbókarsíðu sinni að hann efist ekki um æðstu stjórnendur Reykjavíkurborgar hafi ekki vitað um skólplekann við Faxaskjól:
Þetta skólpmál í Reykjavík er að verða einhver fáránlegasti pólitíski farsi sem um getur. Efast ekki um að æðstu stjórendur borgarinnar hafi ekki vitað um óhappið,
segir Brynjar. Vísar hann svo í ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrrverandi borgarstjóra um að það hafi verið R-listanum að þakka að skólphreinsistöðvarnar séu til staðar og það hafi verið Sjálfstæðismenn sem hafi helst gagnrýnt þær á sínum tíma. Brynjar segir að meirihlutinn í borginni eigi að taka ábyrgð á klúðrinu:
En í stað þess að taka ábyrgð á klúðrinu og lofa bót og betrun í upplýsingagjöf til almennings í málum af þessu tagi fer meirihlutinn í vörn og heldur fram að skólpmál í borginni væru í lamasessi ef Reykjavíkurlistinn hefði ekki komist til valda 1994. Og þetta kemur frá fólki sem hefur sérstakt lag á að taka rangar og vitlausar ákvarðanir.
„Pólitísk ábyrgð felst ekki bara í því að segja af sér“
Undir færslu Brynjars sköpuðust svo harðar umræður um pólitíska ábyrgð og hvort hún liggi þá ekki einnig hjá stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þar sem Sjálfstæðismenn eiga þrjú sæti af sex og borgarfulltrúa sem varamenn. Segir Jakob Bjarnar Grétarsson blaðamaður Vísis að pólitísk ábyrgð sé ekki til á Íslandi og hafi aldrei verið. Brynjar svarar honum:
Pólitísk ábyrgð felst ekki bara í því að segja af sér, Jakob. Þau geta falist í því að viðurkenna mistök eða að gera átti betur. Það á við í þessu skólpmáli enda er ég ekki að kalla eftir afsögn.