fbpx
Miðvikudagur 10.september 2025
Eyjan

Róbert Trausti: Costco breytir engu – Allt verður komið í sinn vana gang eftir 2-3 vikur

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 26. maí 2017 16:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir biðu spenntir eftir að komast inn í Costco í þriðjudaginn. Mynd/Sigtryggur Ari

Róbert Trausti Árnason fyrrverandi sendiherra og forsetaritari segir að koma Costco komi ekki til með að breyta markaðnum, það hafi oft gerst áður að stórar verslanir hafi opnað við mikinn æsing með tilheyrandi röðum en það sé stutt í það að markaðurinn fari aftur í jafnvægi. Koma Costco hefur vakið mikla athygli og hafa verið langar raðir inn og út úr versluninni í Kauptúni frá því hún opnaði á þriðjudaginn. Búið er að stofna Fésbókarsíðu þar sem fólk deilir myndum og verðsamanburði, og hafa þónokkrir neytendur lýst því yfir að þeir hafi misst trúna á verslunum sem voru fyrir eftir að hafa séð verðin í Costco og ætli sér nú eingöngu að versla í Costco.

Róbert Trausti segir í pistli á Hringbraut í dag að opnun Costco sé í samræmi við aðra atburði sem hafa orðið á Íslandi síðustu áratugina sem snúi að þróun verslunar og viðskiptahátta. Nefnir hann sérstaklega opnun IKEA, Rúmfatalagersins, Elko, Lindex, Kosts og Bauhaus:

Reynslan hefur sýnt að nokkrum vikum eftir opnun þessara verslana hefur allt leitað jafnvægis og lífið hefur haldið áfram að ganga sinn vana gang.

Sama mun verða uppi á teningnum varðandi Costco. Fljótlega verða neytendur búnir að átta sig á þessari verslun og svala forvitni sinni. Þá kemst markaðurinn aftur í jafnvægi. Það mun ekki taka langan tíma, í mesta lagi 2 til 3 vikur.

Róbert Trausti Árnason fyrrverandi sendiherra og forsetaritari.

„Spunameistarar Costco hafa leikið sér að íslenskum fjölmiðlum“

Róbert segir fjölmiðla hafa verið misnotaða í aðdraganda opnunar Costco:

„RÚV, miðlar 365 og Morgunblaðið hafa hamast eins og um þvílíkan stórviðburð væri að ræða að ekkert yrði eins í tilverunni eftir opnun þessarar einu verslunar á Íslandi. Það er mikill misskilningur eins og fljótlega mun koma í ljós.“

Einungis sé um að ræða eina verslun og bent hafi verið á að afkastageta sambærilegra verslana Costco í útlöndum sé sú að bestu verslanir þeirra geta selt fyrir um 10 milljarða króna á ári og þó verslunin í Kauptúni verði sú besta í heiminum muni hún ekki kollvarpa markaðnum:

„Markaðshlutdeild sem nemur 2,5% mun ekki kollvarpa neinu. Það ættu þessir stóru fjömiðlar að vita. Í ljósi þess er meðvirkni þeirra gagnvart Costco illskiljanleg og jaðrar við hneyksli. Spunameistarar Costco hafa leikið sér að íslenskum fjölmiðlum.“

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB.

Segir Runólf bera saman epli og appelsínur og fá banana

Varðandi bensínverð og gagnrýni Runólfs Ólafssonar framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda þá segir Róbert það „alþekkt markaðstrix“ hjá Costco að niðurgreiða bensínverð til að laða fólk að versluninnni:

„Runólfur hefur verið með miklar og órökstuddar upphrópanir í fjölmiðlum út af því verði sem Costco hefur kynnt og talið það benda til óeðlilegrar verðlagningar hjá Skeljungi, N1, Olís og Atlantsolíu sem eiga í harðri samkeppni hringinn í kringum landið,“

segir Róbert Trausti. Ekki sé tekið með í verðsamanburðinn að Costco sé með eitt verð á einni stöð á meðan hinar stöðvarnar bjóði upp á afslætti, vildarpunkta, margháttaða þjónustu og stöðvar um allt land:

Runólfur Ólafsson er þekktur fyrir að bera saman epli og appelsínur og fá út banana þegar hann ræðir um málefni íslenskra olíufélaga. Nú eru starfandi um 300 bensínafgreiðslur hringinn í kringum landið á vegum fjögurra olíufélaga. Ein stöð til viðbótar í Garðabæ mun engu breyta um eldsneytismarkaðinn á Íslandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Utanríkispólitík stjórnarandstöðunnar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Utanríkispólitík stjórnarandstöðunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Ekki vera það sem þú ert

Sigmundur Ernir skrifar: Ekki vera það sem þú ert
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur tekinn við af Hildi

Ólafur tekinn við af Hildi