Stjórnarandstaðan hélt áfram að gagnrýna orð Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra um samgönguáætlun, en líkt og Eyjan greindi frá á þriðjudaginn sagði Benedikt nánast siðlaust af þingheimi á síðasta kjörtímabili að ákveða samhljóða að eyða 14 milljörðum meira í samgönguáætlun án þess að hafa tryggt fjármögnun. Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu ummælin harðlega og sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður Vinstri grænna að ummælin væru lítilsvirðing í garð þingsins:
Ég held að ég hafi aldrei á þeim árum sem ég hef fylgst með Alþingi orðið vitni að slíkum dónaskap gagnvart þinginu. Að tala um vilja löggjafans, sem kemur skýrt fram í samþykktri samgönguáætlun, og að það sé siðlaust af löggjafanum. Þetta er þvílík lítilsvirðing og þvílíkt brengluð hugsun um þrískiptingu ríkisvaldsins,
sagði Kolbeinn. Katrín Jakobsdóttir formaður VG spurði Benedikt í morgun hvort hann vildi endurskoða afstöðu sína og taka þessi orð sín til baka:
Það má öllum vera ljóst að ef þessi ummæli hæstvirts ráðherra standa óbreytt gagnvart Alþingi er það grafalvarlegt mál. Ég vil því spyrja hæstvirtan ráðherra hvort hann vilji ekki nýta tækifærið hér í þessum stól til að endurskoða afstöðu sína og taka þessi orð sín um siðleysi löggjafasamkundunnar til baka.
Segir umræðuna snúast um orðalag
Benedikt sagði að honum þætti leitt að orð hans hefðu valdið uppnámi og sagði umræðuna snúast að mestu leyti um orðalag:
„Ég hygg að málefnið sem við erum hér með sé þess eðlis að það sé eðlilegt að við horfum á aðdragandann, það er að segja að skömmu fyrir samþykkt samgönguáætlunar var samþykkt hér fjármálaáætlun. Í fjármálaáætluninni var ekki svigrúm fyrir þessa samgönguáætlun og það vissu menn á þeim tíma. Þetta er það sem ég hef verið að benda á í samtali við þennan fjölmiðil og gekk svosem ekkert verra til.“
„Þetta eru mjög stór orð“
Katrín sagði svar ráðherra ekki fullnægjandi og málið snerist ekki um orðalag:
Þá vitum við það að hæstvirtum ráðherra finnst í lagi að kalla löggjafasamkunduna siðlausa. Þá bara liggur það fyrir. Þetta er ekki spurning um orðalag. Þetta eru mjög stór orð sem hæstvirtur ráðherra lét falla og þá bara liggur það fyrir að honum finnst þetta eðlilegur talsmáti í garð Alþingis, en hann situr einmitt í umboði þess sama Alþingis,
sagði Katrín. Benedikt ítrekaði þá afstöðu sína um að of mikið væri gert úr orðum sínum, meiningin hafi verið ljós og að meiningin væri ljósari mörgum þingmenn sem ef þeir hefðu hlustað á viðtalið við sig í Bítinu á Bylgjunni á þriðjudagsmorguninn:
Ég held að það sé mikilvægt að sýna Alþingi virðingu. Ég held að það sé mikilvægt að það komi fram að ég hef ekki sagt það að Alþingi sé siðlaust. Það er auðvitað sitt hvað að segja að eitthvað gerist nánast og að eitthvað gerist. Ég drukknaði nánast á afmælisdeginum mínum. Drukknaði ég? Nei, ég drukknaði ekki. Ég lenti nánast í árekstri. Lenti ég í árakstri? Nei það gerði ég ekki. Þetta er grundvallarmunur.