Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aukið gagnsæi vegna niðurstaðna PISA könnunar var felld í gær. Tillagan hefði falið í sér að samþykki borgarstjórnar að óska eftir því við Menntamálastofnun að Reykjavíkurborg fái sundurgreindar upplýsingar um árangur hvers skóla í borginni í PISA könnun 2015 í einstökum greinum; þ.e. lesskilningi, náttúruvísindum og stærðfræði.
Umræddar upplýsingar um árangur hvers skóla yrðu svo sendar viðkomandi skólastjórnendum, sem kynni þær fyrir skólaráðum sínum og stjórn foreldrafélags, í því skyni að hvetja til upplýstra umræðna um kennsluhætti og námsárangur.Tillagan var felld með 9 atkvæðum meirihlutans gegn 6 atkvæðum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar.
Í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins segir að þetta sé skammsýni af hálfu meirihlutans:
Það lýsir skammsýni og metnaðarleysi hjá borgarfulltrúum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna að hafna því að Reykjavíkurborg óski eftir sundurgreindum upplýsingum um árangur hvers skóla í borginni í PISA-könnun 2015 í einstökum greinum og afhendi þær viðkomandi skólastjórnendum, vilji þeir nota þær í því skyni að bæta skólastarfið.
Flest önnur sveitarfélög landsins fái slíkar niðurstöður og koma til með að nýta þær til umbóta í skólastarfi sínu, sem hafi verið gert árið 2012:
Mörg erlend skólakerfi nota niðurstöður PISA-prófa til gefa grunnskólum endurgjöf á starf þeirra. Íslenska menntakerfið er í kjörstöðu að því leyti að hér þreyta allir 10.bekkingar PISA prófið og því ættu niðurstöður þess að nýtast betur en í öðrum OECD-ríkjum þar sem einungis er um úrtak að ræða.