Helga Vala Helgadóttir héraðsdómslögmaður gagnrýnir Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra og segir tómt mál að tala um samkeppnisrekstur í tilviki RÚV þar sem enginn annar fjölmiðinn sinnir menningar- og fræðsluhlutverki RÚV. Sigríður sagði um helgina það vera fráleitt að ríkið reki fjölmiðil og sé í samkeppnisrekstri:
„Kannski var allt í lagi að halda þessu úti þegar það var heilmikið verk að kaupa tæki til útsendingar. Sú rök eru ekki lengur til staðar, það getur hver sem er gert þetta og þar fyrir utan er fullt af fjölmiðlum starfrækt í landinu. Það er ekki eins og þetta ágæta fólk sem vinnur á RÚV myndi hverfa þótt ríkið myndi hætta að reka miðilinn,“
sagði Sigríður og bætti við:
Þetta er samkeppnisrekstur og ríkið á ekki heima í slíku umhverfi.
„Af hverju er það þá ekki gert?“
Í pistli sem Helga Vala skrifar í Fréttablaðið í dag segir hún:
„Enn einu sinni fáum við fregnir af frjálshyggjuhegrum sem umfram allt vilja leggja Ríkisútvarpið niður. Segja fráleitt að ríkið sé að standa í slíkum rekstri því aðrir geti vel sinnt því.
En af hverju er það þá ekki gert? Hvers vegna er engin útvarpsstöð á Íslandi á pari við það sem gert er á Rás 1 og 2? Hvernig stendur á því að ekki ein einasta útvarpsstöð sinnir öðru en dægurmálum og íþróttum? Spilar lög af geisladiskum og opnar fyrir símann?“
Segir hún samkeppnisaðila RÚV ekki fjalla um sögulega hluti, ítarlega um hljómsveitir eða tónverk, flytja ekki útvarpsleikrit, útvarpssögur eða flakka um borg og bæi með sagnfræðingi sem tjáir sig um sögu húsa og gatna. Hinar stöðvarnar sinni sínu hlutverki sem afþreyingarstöðvar vel, enda ekki annars krafist af þeim:
Það er þannig tómt mál að tala um samkeppnisrekstur. Það sinnir enginn annar menningar- og fræðsluhlutverki Ríkisútvarpsins. Það er líklega þess vegna sem 70% landsmanna treysta Ríkisútvarpinu á meðan næsti fjölmiðill fyrir neðan er með 40% traust og aðrir enn neðar. Ekki skemma það sem vel er gert. Það er nóg samt.