Gísli Sigurgeirsson skrifar frá Akureyri:
Akureyringar fjölmenntu á togarabryggjuna um hádegisbil, þegar nýr togari Útgerðarfélags Akureyringa lagist þar að bryggju. Kaldbakur EA1 er ísfisktogari, sá þriðji með sama nafni og á fyrstu myndinni ber skipið við fjallið Kaldbak. Fyrsti Kaldbakur var síðutogari og kom til Akureyrar 17. maí 1947. Hann er löngu kominn í brotajárn. Gamli Kaldbakur, sem nú heitir Sólbakur og kom til Akureyrar 1974, sigldi á móts við arftaka sinn.
Útgerðarfélag Akureyringa er dótturfélag Samherja og að sjálfsögðu tók Þorsteinn Már á móti landfestum skipsins. Skipið er hið fyrsta af fjórum systurskipum sem smíðuð eru hjá Cemre-skipasmíðastöðinni og fara tvö til Akureyrar, eitt á Dalvík og eitt til Sauðárkróks. Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri, Samherja, segir að skipin séu tæknilega fullkomin og áhersla hafi verið lögð á hagkvæmni í orkunýtingu.
Á næstu vikum verður búnaður settur upp á vinnsludekki Kaldbaks og verður það verk unnið í umsjón Slippsins á Akureyri. Reiknað er með að Kaldbakur fari til veiða í kringum sjómannadag í byrjun júní. Skipstjórar verða Sigtryggur Gíslason og Angantýr Arnar Árnason, yfirvélstjóri er Hreinn Skúli Erhartsson. Alls verða 13-15 manns í áhöfn.