Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að gengi íslensku krónunnar verði ekki fellt og að veiðigjöld verði ekki lækkuð. Fyrirtæki í sjávarútvegi, sem hafi verið veittur réttur á auðlind þjóðarinnar, þurfi að sýna samfélagslega ábyrgð. Þau hafi hagnast mikið síðustu ár:
Gengið verður ekki fellt. Það sem skiptir mestu máli er að taka á gjaldmiðlamálum okkar Íslendinga. Við sjáum sama vandann víða um land sem er of sterkt gengi krónunnar. Við hljótum öll að sjá að það gengur ekki lengur að vera með íslenska krónu.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. „Það er ekki á dagskrá að lækka veiðigjöldin. Ég er mjög treg til þess,“ sagði Þorgerður Katrín. Í blaðinu segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, að lækka þurfi veiðigjöld en þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Teitur Björn Einarsson, tók í sama streng í ræðu á Alþingi í gær.
Framkvæmdastjóri HB Granda á Akranesi, sem ætlar að hætta bolfiskvinnslu á Akranesi, vill ekki gefa upp hversu mikið tapið verður á vinnslunni á árinu en Akranesbær hefur kynnt forsvarsmönnum fyrirtækisins aðgerðir upp á ríflega milljarð króna til að bæta aðstöðu HB Granda til vinnslu í bænum.