Fyrrum forsætisráðherra heldur því fram að fleirum en honum hafi verið boðnar mútur af vogunarsjóðum. Þetta fullyrðir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokks og núverandi fyrsti þingmaður flokksins í Norðausturkjördæmi í viðtali við DV í dag. Össur Skarphéðinsson, fyrrum ráðherra og þingmaður tjáir sig um þessar fullyrðingar Sigmundar í pistli á Facebook síðu sinni og beinir því til fjölmiðla að þeir komist til botns í þessu máli í stað þess að afgreiða þetta sem ,,hreina markleysu“ eins og hann orðar það og Sigmundur segir að margir álíti þetta hálfgerða sefasýki.
Össur segist sjálfur ekki vita ,,hvoru megin hinnar fínu línu galskaparins ég yrði sjálfur flokkaður og treysti mér ekki til að fullyrða neitt um forystumenn Framsóknar í þeim efnum.“ Eflaust myndi enginn taka nokkuð mark á forsætisráðherranum fyrrverandi segir Össur ef ekki ,,lægi fyrir bréf og játning þeirra sem það reyndu?“
Það er erfitt að komast í gegnum átök stjórnmálanna án þess að þróa með sér smávegis ofsóknaræði samkvæmt utanríkisráðherranum fyrrverandi og segist hann sjálfur hafa gert það á sínum þriggja áratuga ferli í pólitík.
Það var tilkynnt fyrir skömmu að vogunarsjóðir hefðu keypt umtalsverðan hlut í Arion banka af kröfuhöfum og einn þeirra, Och-Ziff, var fyrir nokkru sektaður um 23 milljarða fyrir mútugreiðslur í fimm Afríkuríkjum af bandarískum yfirvöldum. Af því tilefni spyr Össur: ,,Þarf þá að hljóma ótrúlega þó menn hafi rennt þrjátíu peningum silfurs undir vit forsætisráðherra örríkis norður undir heimskauti?“
Össur rifjar upp atvik þar sem ráðherra fékk senda riffilkúlu í pósti sem dæmi um þær hótanir sem ráðherrar geta setið undir.
Ég man eftir ráðherra sem fékk helvíti volduga riffilkúlu í pósti. Læt ég þá vera að tala um önnur ósköp.
Hann hvetur fjölmiðla til að sannreyna þessar fullyrðingar Sigmundar með því að ræða við aðra ráðherra úr ríkisstjórn hans.
Einhvern tíma hefði þetta orðið fjölmiðlum tilefni til að leita til allra ráðherra síðustu ríkisstjórnar og spyrja hvort þeim hefðu verið boðnar mútur, hvenær, við hvaða aðstæður – og af hverjum?