Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur ítrekað borið á borð fjölmiðla og dómstóla rangar upplýsingar til að breiða yfir eigin gjörðir. Þetta segir í yfirlýsingu sem Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján V. Vilhelmsson hjá Samherja sendu frá sér í dag. Segja þeir að Már hafi sagt ósatt og varpað eigin ábyrgð á aðra í viðtali í þættinum Eyjunni síðastliðinn fimmtudag. Vitna þeir Þorsteinn og Kristján beint í Má:
Ja ég get nú ekki talað um einstök mál, ég meina, það má eiginlega segja hvað með það í sjálfu sér. Það er oft, það er fullt af svona málum sem komu upp og hérna já, svo fara þau ekki alla leið. Það er ekki okkar að taka ákvarðanir um það, það er annarra,
sagði Már aðspurður um Samherja. Segja þeir Þorsteinn og Kristján það vera til allrar hamingju að húsleitin í starfsstöðvum Samherja sé einstakt:
Hvað sem líður orðum seðlabankastjóra að það sé ekki hans að taka ákvörðun um hvort mál fari „alla leið“ eða ekki þá er það hans ákvörðun hvort farið sé í húsleit, haldinn blaðamannafundur, mál séu kærð til lögreglu eða með hvaða hætti þeim er lokið af hálfu bankans. Sama gildir um setningu reglna og tillögur við lagabreytingar. Þessar ákvarðanir eru alltaf hans. Það er ekki lagaleg skylda embættismanna, eins og seðlabankastjóra hefur verið títtrætt um, að hafa fólk fyrir rangri sök. Það er brot í starfi. Fólk og fyrirtæki líta ekki á það sem tækifæri að vera kært. Slíkt er mjög íþyngjandi fyrir flesta.
Segja þeir að ef Seðlabankinn hefði virt niðurstöður og leiðbeiningar sérstaks saksóknara eða þær fjölmörgu ábendingar sem bankanum hafa borist í gegnum árin hefði vafalaust verið hægt að forða miklu tjóni og miska fjölmargra einstaklinga og lögaðila. Hafa skal í huga að bankinn hefur kært á annað hundrað einstaklinga og lögaðila frá setningu gjaldeyrishafta:
Seðlabankastjóri hefur oftsinnis hundsað niðurstöður og rökstuðning sérstaks saksóknara í málum sem bankinn hefur kært og ýmist borið því við að málin hafi verið of flókin fyrir embættið eða um sé að kenna lagaklúðri sem rekja megi til annarra en bankans. Í umræddu viðtali 23. mars sl. staðfesti seðlabankastjóri hins vegar að eitt af meginhlutverkum bankans sé smíði lagafrumvarpa. Verður það ekki skilið með öðrum hætti en að Seðlabankinn hafi átt virka aðkomu að því lagaklúðri sem seðlabankastjóri reynir ítrekað að kenna öðrum um.