„Við höfum fengið mikil viðbrögð og mjög margir eru hneykslaðir á þessu ástandi, margir eru líka reiðir og greinilegt að okkar saga snertir marga. Sumir hafa líka lent í svipuðum aðstæðum. Við erum ekki að ásaka einn eða neinn í þessu ferli, bara benda á þá ísköldu staðreynt að þetta er heilbrigðisþjónusta eldri borgara í dag.“
Þetta segir Lísa Björg Ingvarsdóttir í samtali við Eyjuna en Fréttatíminn vakti fyrst athygli á stöðu þeirra hjóna. Faðir hennar Ingvar Daníel Eiríksson er með Parkinson-sjúkdóminn og býr á dvalarheimili á Vík í Mýrdal en þar hefur hann verið frá 20. nóvember. Eiginkona hans, Eygló Jóna Gunnarsdóttir býr á Selfossi. Þau hafa verið saman í 59 ár eða síðan hann var 18 ára og hún 15 ára. Nú er búið að aðskilja þau og eiga þau bæði mjög erfitt með að vera án hvors annars. Lísa Björg greindi frá því í samtali við Fréttatímann að móðir hennar hefði m.a. reynt að húkka sér far á milli Víkur og Selfoss en þau taka bæði aðskilnaðinn afar nærri sér.
„Ég skil vel af hverju pabbi minn spyr: Af hverju er ég hér, ég vissi ekki að þetta myndi verða svona. Þetta er búin að vera ein sorgarsaga.“
Upphaflega töldu þau að aðskilnaðurinn myndi vara í nokkar vikur. Síðan þá eru nokkrir mánuðir liðnir. Lísa vonaðist eftir að faðir hennar fengi að búa á Kumbaravogi en sá draumur dó þegar heimilinu var lokað. Til stendur að reisa hjúkrunarheimili á Selfossi en Lísa segir í samtali við Eyjuna að ljóst sé að nokkur ár séu í að það heimili rísi. Í samtali við Fréttatímann segir hún á að þriðja tug fólks bíði eftir hjúkrunarheimili á Selfossi. Í Reykjavík eru 300 á biðlista og er Ingvar á biðlista á 8 stöðum í Reykjavík. Segir Lísa að henni líði illa og ástandið sé að buga móður hennar.
„Það má ef til vill deila á þá ákvörðun að loka Kumbaravogi áður en nýtt hjúkrunarheimili hefur risið í Árborg. Hefði ef til vill verið hægt að leysa það mál á annan hátt, fá nýja leigutaka eða álíka. Það er búið að loka tveimur hjúkrunarheimilum í Árborg með stuttu millibili og frekar líklegt að nýtt hjúkrunarheimili verði ekki risið í Árborg fyrr en árið 2020, allavega er ekki byrjað að teikna það ennþá.“
Lísa segir í samtali við Fréttatímann að systkinin hafi skipst á að fara með móður þeirra til Víkur en stundum hafi hún fengið far. Þá hafi hún einnig farið til Víkur og treyst á að geta fengið far með einhverjum hætti til baka. Það hafi ekki alltaf gengið eftir. Í eitt skipti fékk hún far að Hellu og þegar Lísa hringdi seint um kvöld stóð móðir hennar í svarta myrkri á brú á þjóðveginum:
„… og var að reyna að húkka sér far. Þetta er bara dæmi um örvæntingarfullar ákvarðanir eldra fólks sem að vill hittast.“