Útgjöld Íslands til ríkisaðstoðar jukust um 10,5% á árinu 2015. Þrátt fyrir þessa aukningu er hlutfall ríkisaðstoðar af landsframleiðslu fremur lágt á Íslandi og talsvert lægra en meðaltal ríkja Evrópusambandsins.
Þetta kemur fram í nýjustu samanburðarskýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, um útgjöld til ríkisaðstoðar í EFTA-ríkjunum sem birt var í morgun.
Aukninguna árið 2015 má helst rekja til ríkisaðstoðar sem Ísland veitti til verkefna á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Rannsóknarsjóður-Rannís og Tæknisjóður – Rannís fengu viðbótarframlög og einnig var ríkisaðstoð til byggðaþróunar aukin.
Þegar litið er yfir alla Evrópu er Ísland talsvert neðarlega á listanum yfir útgjöld til ríkisaðstoðar af vergri landsframleiðslu, 0,4% hér á landi samanborið við 0,62% sem er meðaltalið í ESB. Talan í Noregi er 0,79% en langmest í Lettlandi þar sem 2,2% af vergi landsframleiðslu fara til ríkisaðstoðar á sviðum þróunar, nýsköpunar og rannsókna.