Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, er andlit fyrirtækisins. Hann er einarður talsmaður lágs vöruverðs og hefur ákveðnar skoðanir á því hvers konar starfsmannastefna sé árangursríkust. Hann er í viðtali í DV sem kom út í dag. Þar fjallar hann einnig um tíma sinn á Dominos og hvernig hann lækkaði launakostnað með því að hækka laun starfsmanna.
Þórarinn vann hjá Domino’s hér á landi en fór síðan til Danmerkur og var þar í fjögur ár og sá um að koma Domino’s á laggirnar. Hann sneri síðan aftur heim árið 2000.
„Ég var kallaður heim í snarhasti, það var mikill uppgangur og mikið að gera hjá Domino’s en um leið var bullandi tap, Fyrirtækið hafði stækkað of ört og launakostnaður var alltof hár. Það var verið að brenna laununum í stað þess að hafa færri starfsmenn sem vissu hvað þeir voru að gera. Hugsunin var: Borgum eins lág laun og við getum. Starfsmenn komu inn og fóru út, þetta var eins og strætóstoppistöð.
Ég kom með tillögu til stjórnar, sagði að til að lækka launakostnað þyrftum við að snarhækka laun. Ég náði að selja stjórninni þessa hugmynd og hækkaði laun um 30 prósent. Það fyrsta sem gerist þegar maður hækkar laun um 30 prósent er að þau hækka bara, maður sér engan árangur. Tapið hjá okkur jókst. Það tók sex mánuði að snúa þessu við. Svo allt í einu fór þjónustan að batna af því að komið var til starfa þjálfað fólk. Á fyrsta árinu lækkaði launakostnaður um 20 prósent.“
Í kjölfarið fór rekstur að ganga vel.
„Ég var með fjölmargar hugmyndir sem ég hrinti í framkvæmd, eins og að viðskiptavinir fengju sms í símann sinn þegar pítsan var komin í ofninn og Megavikan er barnið mitt.“