Bankaráð Seðlabanka Íslands krafðist þess að Már Guðmundsson seðlabankastjóri léti af umræðu um málarekstur bankans gegn Samherja. Bókunin var samþykkt í kjölfar umræðu á fyrri fundum bankaráðsins þar sem framganga Más í fjölmiðlum var til umræðu. Hafði Már lengi vel á undan rætt opinberlega um málareksturinn gegn Samherja.
Morgunblaðið hefur bókunina undir höndum, þar segir:
Bankaráð Seðlabanka Íslands ítrekar áhyggjur sínar af opinberri umræðu seðlabankastjóra um einstök mál sem bankinn er með í vinnslu sbr. umræðu á fyrri fundum og m.a. fundi 1121. Bankaráðið krefst þess að seðlabankastjóri láti nú þegar af slíkri umræðu.
Bókunin var gerð í mars 2016, þremur dögum eftir að Már mætti í viðtal á Eyjunni á Stöð 2.
Í viðtalinu sagði Már meðal annars að gera þyrftu gagngerar breytingar á rannsókn efnahagsbrotamála á Íslandi og ræddi hann framgöngu gjaldeyriseftirlits Seðlabankans og yfirmanns þess í málum tengdum rannsóknum þess, meðal annars gegn Samherja.