Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir það sorglegt að hugsa til þess að hinum svokölluðu hrægömmum hafi tekist að kaupa hlut í Arion banka eftir að hafa í langan tíma flogið yfir íslensku viðskiptalífi í leit að bestu bitunum. Það hafi þeim tekist nú eftir að aðilum á borð við Goldman Sachs og Och-Ziff hafa fjárfest í Arion. Þetta kemur fram í nýjum pistli hans á Pressunni.
Nú hafa hrægammarnir sem sagt fundið sér hreiðurstað í höfuðstöðvum Arion banka í Borgartúni og bíða nú þess að ungar þeirra klekist úr eggjum sínum. Væntanlega verður hlutverk þeirra síðan að mynda loftbrú og fljúga með hagnað og arð bankans, sem myndast vegna okurvaxta, verðtryggingar og hárra þjónustugjalda, frá Íslandi og til höfuðstöðva hrægammasjóðanna erlendis,
segir Vilhjálmur. Það er ekkert skrýtið að hrægammarnir vilji komast í kjötkatlana hér segir Vilhjálmur enda hafi íslensku bankarnir skilað hvorki meira né minna en 600 milljörðum í hagnað frá hruni. Arion banki hefur skilað tæpum 200 milljörðum og í fyrra hagnaðisti hann um 27,2 milljarða fyrir skatta. Það skýtur skökku við að mati hans að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fagni því sem miklum áfangasigri að selja 38% hlut í bankanum fyrir 48 milljarða þegar svo vel gengur hjá honum.
Við hljótum sem þjóð að spyrja okkur af hverju er verið að selja erlendum hrægömmum slíka gullgæs? Af hverju eru stjórnvöld að selja fyrirtæki sem hefur skilað 200 milljörðum í hagnað til aðila sem munu svo flytja hagnaðinn og arðinn af starfseminni úr landi í formi gjaldeyris?
Það er mikilvægt að auka á samkeppnina í bankakerfinu að mati verkalýðsleiðtogans en þetta telur hann ekki réttu leiðina til þess. Betra hefði verið að fá erlenda aðila til að opna nýjan banka hér því ekki munu kaup hrægammanna auka samkeppnina.
Vilhjálmur er afar svartsýnn með framhaldið. Þessi kaup munu að hans mati viðhalda þeim háum vöxtum sem hér eru, verðtryggingunni og háum þjónustugjöldum. Þetta verði ekki til að bæta hag þjóðarinnar.