Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra afþakkaði boð um að mæta í umræðu á Stöð 2 í gær eftir að það kom í ljós að hann myndi mæta Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni þingmanni Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. Þetta fullyrðir Fréttablaðið í dálknum Frá degi til dags. Þar segir jafnframt:
Þegar í ljós kom um miðjan dag að fulltrúi stjórnarandstöðunnar yrði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, var Gylfi Ólafsson, aðstoðarmaður ráðherra, fljótur að afþakka boðið og sagði það ekki „umræðunni til framdráttar“.
Þeir Benedikt og Sigmundur eru á öndverðum meiði þegar kemur að kaupum þriggja vogunarsjóða ásamt Goldman Sachs á 30% hlut í Arion banka. Benedikt sagði í gær að hann væri jákvæður í garð sölunnar þar sem sjóðirnir væri nú að veðja með Íslandi frekar en gegn, Benedikt sagði þó að það væri óviðunandi ef ekki verði endanlega upplýst um endanlega eigendur hlutanna í Arion banka. Sigmundur setti stór spurningamerki við söluna og sagði Goldman Sachs vera „erkitáknmynd alþjóðafjármálakerfisins“. Einnig rifjaði Sigmundur upp mál Och-Ziff, sem á nú 6,6% í Arion banka, en fyrirtækið var dæmt til að greiða 213 milljón dollara sekt fyrir að hafa greitt opinberum starfsmönnum í Afríku mútur.