Gunnar Hrafn Jónsson þingmaður Pírata snýr aftur á þing fyrir flokkinn á mánudaginn eftir að hafa verið í veikindaleyfi vegna þunglyndis frá því í desember. Segir hann í samtali við Eyjuna að hann hyggist berjast fyrir geðheilbrigðismálum þegar hann snýr aftur á þing. Viktor Orri Valgarðsson tók sæti Gunnars Hrafns á þingi á meðan hinn síðarnefndi var í leyfi, Viktor Orri hefur verið ötull talsmaður áfengisfrumvarpsins en það er Gunnar Hrafn ekki:
Nei, ég styð ekki frumvarpið að óbreyttu,
segir Gunnar Hrafn, fara því líkurnar á því að frumvarpið verði samþykkt minnkandi.
Gagnrýndur fyrir uppistand í veikindaleyfi
Gunnar Hrafn hefur verið gagnrýndur á samfélagsmiðlum fyrir að vera með uppistand á Herrakvöldi Þróttar næstkomandi laugardag. Málflutningur þeirra sem hafa gagnrýnt hann snýst um að Gunnar Hrafn sé að skemmta fólki á sama tíma og hann sé í launuðu veikindaleyfi frá Alþingi. Gunnar Hrafn segir skiljanlegt að fólk setji spurningamerki við uppistandið:
Ég skil það alveg að fólk heldur bara að maður sé frá til langs tíma og að taka að sér uppistand á milli þá lítur það furðulega út. Ég er búinn að vera að mæta á þing undanfarið og það er verið að ganga frá því að þetta verði formlegt í næstu viku.
Aðspurður um hvernig hann hafi það nú segir Gunnar Hrafn:
Ég hef það bara fínt, allt annar maður en ég var. Ég er búinn að fá ótrúlega mikla hjálp úr öllum áttum, alls konar fólki þvert á flokka. Það eru allir rosalega jákvæðir.
Hyggst berjast fyrir geðheilbrigðismálum
Yfirlýsing hans vakti mikla athygli rétt fyrir jólin, eftir að hann steig fram hafi fólk jafnvel stöðvað hann á förnum vegi til að taka í hendina á honum og segja honum sína reynslusögu. Mun hann nú tala við umbótum í geðheilbrigðismálum á þingi:
Það verður mitt helsta verk þegar ég kem aftur að fara í gegngera uppstokkun á því kerfi, eins og hefur verið lofað. Óttarr hefur lofað því en ég á eftir að ræða við hann hvernig útfærslan verður, en það verður að gera eitthvað átak geðheilbrigðismálum, helst á þessu þingi.