Sturla Böðvarsson bæjarstjóri á Stykkishólmi og fyrrverandi samgönguráðherra segir að samningur Reykjavíkurborgar við fasteignafélagið Festi stríði gegn hagsmunum íbúa landsbyggðarinnar. Fyrir viku undirritaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og fasteignafélagið Festir ehf. samninga um uppbyggingu 332 íbúða á Gelgjutanga og er áætlað að hefja byggingu á næsta ári.
Sturla Böðvarsson er ekki sáttur og segir í Pressupennapistli í dag:
„Enn hefur verið birt mynd af borgarstjóranum í Reykjavík undirrita samning sem stríðir gegn hagsmunum okkar sem búum utan borgarinnar,“
segir Sturla. Segir hann íbúa landsins lengi fylgst með því hvernig stjórnendur borgarinnar hafa unnið að því að hrekja í burtu flugstarfsemi á Reykjavíkurflugvelli. Það sé gert í andstöðu við meirihluta þjóðarinnar, gegn hagsmunum landsbyggðanna og í andstöðu við þá sem hafa farið með samgöngumál:
„Nú kastar fyrst tólfunum þegar borgarstjórinn hefur undirritað samning við byggingarfyrirtæki sem vill byggja og kemur þannig varanlega í veg fyrir að Sundabraut verði byggð samkvæmt tillögum Vegagerðarinnar og okkar bestu hönnuða samgöngumannvirkja.“
Sturla segir að með þessum aðgerðum sé flutningaleiðin að borginni gerð óhagkvæm sem skerði lífskjör þeirra sem búa utan borgarmarkanna:
Hagkvæmustu leiðir að borginni verða ekki byggðar. Hvað gengur borgaryfirvöldum til með Dag B Eggertsson í broddi fylkingar?