„Allar ríkisstjórnir síðustu 30 ár hafa unnið að því að þvinga heilbrigðisþjónustuna inn í kommúnískt ríkisrekstrarkerfi miðstýringar og ofstjórnar,“ segir Ingólfur S. Sveinsson læknir. Hann segir í grein sem birtist í Morgunblaðinu að margir kunni að taka undir orð Ólafs Ólafssonar fyrrverandi landlæknis sem sagði nýverið í Læknablaðinu að „opinber rekstur tryggi gæði og jöfnuð í heilbrigðiskerfinu.“ Ingólfur segir aðra efast og að barnatrú á sósíalisma sé fögur í fjarlægð:
Við eigum nýja reynslu af ríkissósíalisma í framkvæmd og eigum hins vegar fyrirmyndir úr okkar eigin sögu. Fyrir utan að eiga gott starfsfólk eru Sjúkratryggingarnar, skyldutryggingar í okkar eigu – ekki ríkisins – það dýrmætasta í heilbrigðisþjónustunni. Ríkisrekstur heilbrigðisstofnana býður upp á vanrækslu. Ég tek því undir orð Ólafs, fv. landlæknis, með fyrirvara. Opinber rekstur tryggir gæði og jöfnuð í heilbrigðiskerfinu – að því gefnu að neytendur kerfisins, sjúklingarnir, hafi valfrelsi um þjónustuna og að kerfið – þjónustukerfið sjálft, njóti þess öryggis og aðhalds að hafa virka samkeppni utan frá.
Þjóðin vill geta treyst á spítalann en hefur stöðugar áhyggjur
Landspítalinn, oft nefndur „þjóðarsjúkrahúsið“ mætti eins kallast þjóðarsjúklingurinn. Þjóðin vill geta treyst á hann en hefur stöðugar áhyggjur. Margt er þar gert vel einkum það sem hvergi er unnt að gera annars staðar, s.s. hjarta- og lungnaaðgerðir. En spítalinn er eina bráðasjúkrahúsið á höfuðborgarsvæðinu síðustu 15 árin. Áður skiptust á þrjú sjúkrahús með vaktir. Spítalinn á alltaf að vera viðbúinn, eiga auð rúm, nokkur einbýli. En daglega berast fréttir af yfirfullum spítala, langt yfir 100% nýtingu rúma í venjulegum flensufaraldri. (Stórslys – nei takk.) Slíkt ástand er fráleit meðferð á sjúklingum og starfsfólki. Yfirálag, fráflæðivandi, fælingarvandi. Fólk fer. Starfsfólksskortur þýðir meira álag á þá sem áfram starfa og allir vita að síþreyta, streita, fjölgar fjarvistum. Biðlistarnir eru varanlegt ástand,
segir Ingólfur og bætir við:
„Margir þakka fyrir frábæra þjónustu starfsfólks. Aðrir kvarta sáran um að fá enga eða ófullnægjandi þjónustu. Komast ekki að. Vanrækslan á viðhaldi spítalans þýðir milljarða viðgerðarkostnað og spítalinn skuldar margra ára húsaleigu fyrir hjúkrunarpláss. Vanræktur eða bara venjulegur ríkisrekstur á kafi í verkefnum.“
Gömul saga skýrir afstöðu Páls
Segir Ingólfur það koma á óvart að Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans sé á móti því að SÍ gangi til samninga við Klíníkina:
„Yrði ógn við spítalann fremur en aðstoð. Gömul saga frá Kína gæti skýrt málið. Keisarinn mátti aldrei tapa landskika í hendur óvinaþjóða. Refsing hans var óvirðuleg útför. Þessu má snúa við: Forstjóri sem létti verkefnum af ofhlaðinni stofnun yfir til vel vinnandi nágranna hlyti virðingu af. Vandi heilbrigðisráðherra er nokkur. Hann tekur við stóru, vanræktu búi. Kveðst hafa sótt eftir þessu embætti til að gera gagn í þessari ríkisstjórn. Er það virðingarvert. Einnig sagt að hann ,,fari ekki í stórkostlegar breytingar á heilbrigðiskerfinu“ En breytinga er þörf. Og umræðu þarf.“
„Sá sem ekki er sósíalisti um tvítugt er hjartalaus – Sé hann það enn um fertugt er hann heilalaus“
Hann segir staðreyndina að fjármagnseigendur eigi hlut í húsnæði Klíkíkurinnar vekja ugg hjá sumum, ofnæmi hjá öðrum , en það sé hægt að samning þannig að hagnaður eigenda, ef verður, renni að mestu til að styrkja reksturinn. Það sé gamalgróin andstaða við sjálfstætt starfandi heilbrigðisþjónustu hér á landi, segir Ingólfur, en þangað hafi fólk sótt þjónustu að eigin vali, og greitt með tryggingum sínum og eigin fé í gengum tíðina:
Staðnaðir sósíalistar og aðrir ofstjórnarsinnar amast við flestu sem ekki er ríkisrekið og hafa talað um „tvöfalda heilbrigðisþjónustu“ eins og sjálfstæður rekstur eigi ekki tilverurétt. BSRB hefur sent frá sér ótrúlega ályktun varðandi Klínikina. Telja frekari einkavæðingu í andstöðu við meirihluta þjóðarinnar. Telja það ranga leið að reyna að stytta biðlista með því að greiða fyrirtækjum reknum í hagnaðarskyni. Sjúklingar skulu bíða. Hér má minnast orða Willy Brandts: „Sá sem ekki er sósíalisti um tvítugt er hjartalaus. Sé hann það enn um fertugt er hann heilalaus.“