Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir , fyrrum frambjóðandi til embættis forseta Íslands og varaforseti Feneyjarnefndarinnar hitti fulltrúa stjórnvalda í Ankara á fundum fyrir nokkrum dögum. Ástæða fundarins var ástandið í Tyrklandi. Stjórnvöld þar í landi undir forystu Recep Tayyip Erdoğan forseta hafa undanfarin misseri hert tökin mjög og fangelsað blaðamenn, lokað fjölmiðlum og fleira í kjölfar tilraunar til valdaráns sem fór fram síðasta sumar.
Feneyjarnefndin er ráðgefandi stofnun og tilheyrir Evrópuráðinu. Nefndina skipa sérfræðingar í stjórnskipunarrétti og var hún sett á fót árið 1990 eftir fall Berlínarmúrsins, þegar þörfin á sérfræðiþekkingu í slíkum málum var mikil í Mið og Austur-Evrópu.
Herdís fór fyrir sendinefnd sem hitti Mustafa Elitaş, fyrrum fjármálaráðherra Tyrklands og núverandi þingmanns AKP flokks Erdoğan forseta og Ozgur Özel meðlim stærsta stjórnarandstöðuflokks landsins, CHP. Auk þess hitti nefndin fulltrúa HDP flokksins sem berst gegn mismunun minnihlutahópa í landinu.
Samkvæmt heimildum CNN TURK sögðu fulltrúar CHP flokksins sendinefndinni að fjölmiðlar, félagasamtök og aðrir sem tengjast regnhlífarsamtökum Kúrda í landinu sæti ofsóknum af hálfu yfirvalda í Ankara.
Fundirnir fóru allir fram fyrir luktum dyrum en nefndin mun að sögn Herdísar gefa út drög að áliti sínu innan skamms.