Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherrasegir íslensk stjórnvöld líta mál Meisams Rafiei mjög alvarlegum augum og að íslensk stjórnvöld munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða Íslendinga í sömu stöðu og Meisam. Líkt og greint var frá í gærkvöldi var Meisam Rafiei landsliðsmanni Íslands í tækwondo meinað að ferðast til Bandaríkjanna á íslensku vegabréfi þar sem Meisam er fæddur í Íran. Tilskipun Donalds Trump Bandaríkjaforseta meinar öllum sem eru fæddir Íran, Sýrlandi, Írak, Jemen, Lýbíu, Sómalíu og Súdan að ferðast til Bandaríkjanna tímabundið.
Guðlaugur Þór segir í samtali við RÚV að íslensk stjórnvöld muni lýsa yfir óánægju sinni með ákvörðun bandarískra stjórnvalda að meina Meisam að ferðast til Bandaríkjanna:
Þegar við greindum málið þá sáum við að þetta væri einn af þeim þáttum sem gæti komið upp. Ég vakti athygli á því þá og ég var að vonast að til þessa þyrfti ekki að koma – að þetta yrði afleiðing tilskipunarinnar en því miður varð það niðurstaðan,
sagði Guðlaugur Þór. Hann mun á næstu dögum ræða við norræna starfsbræður um hvort tilskipun Bandaríkjaforseta verði mótmælt sameiginlega á norrænum vettvangi.
Íslendingar sýna andúð á lokun landamæra í verki
Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra skaut föstum skotum á Bandaríkjaforseta þegar hann ásamt forseta Íslands og borgarstjóra, tók á móti fimm fjölskyldum frá Sýrlandi á Bessastöðum í gær, en á meðan tilskipun Trump er í gildi fengi fólkið ekki að ferðast til Bandaríkjanna. Sagði Þorsteinn Íslendinga sýna þeim andúð sem lokuðu landamærum sínum fyrir þeim sem síst skyldi, Íslendingar tækju á móti flóttamönnum með gleði og opnum faðmi því það sé skylda í samfélagi þjóðanna að aðstoða fólk í neyð og bjóða því mannsæmandi líf.