Ásta Guðrún Helgadóttir þingmaður Pírata segir sig hafa átt frumkvæði að fundi utanríkismálanefndar um stöðu mála í Bandaríkjunum, ekki þingmenn Vinstri grænna líkt og fréttatilkynning þeirra gefur til kynna. Kvennablaðið greindi fyrst frá þessu. Bæði þingmenn og ráðherrar hafa stigið fram undanfarna daga og brugðist illa við aðgerðum Donald Trump Bandaríkjaforseta, en tilskipun hans kveður á um að ríkisborgarar Íraks, Írans, Libíu, Sómalíu, Súdans, Sýrlands og Jemens geti ekki ferðast til Bandaríkjanna næstu þrjá mánuði, óháð dvalar- og landvistarleyfi. Hefur Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagt flóttamannatilskipun Trump einungis gera illt verra og hefur Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra sagt tilskipun Trump fela í sér mannvonsku og mismunun.
Í gær sendu þær Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir þingmenn Vinstri grænna og fulltrúar í utanríkismálanefnd Alþingis frá sér fréttatilkynningu þar sem kemur fram að þær óski eftir fundi í utanríkismálanefnd til að ræða tilskipun Trump við utanríkisráðherra.
Ásta Guðrún segir hins vegar á Pírataspjallinu að það hafi nú upphaflega verið hún sem hafi minnst á það við utanríkismálanefnd um að funda með Guðlaugi Þór um ástandið í Bandaríkjunum:
Það var nú upphaflega ég sem minntist á að við í utanríkismálanefnd þyrftum að ræða við utanríkisráðherra um ástandið í Bandaríkjunum,
segir Ásta Guðrún. Henni hafi þó ekki dottið í hug að senda út fréttatilkynningu þar sem þetta væru grundvallar-, eða „basic“, þingstörf og ef hún gerði það þá myndi hún gera fátt annað, en hún muni hins vegar biðja um sérstakar umræður í þinginu vegna málsins:
Minntist sérstaklega á Trump og stöðuna þar þegar það kemur að minnihlutahópum og kvenréttindum. En þúst, ég bara sendi ekki út fréttatilkynningu, fannst það vera soldið over the top. En þúst, whatever floats their boat.
Píratar komast ekki í fréttatíma RÚV á hverju kvöldi
Í tengslum við þessa umræðu spratt svo upp umræða um hvort Píratar, sem er næst stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, njóti sannmælis fjölmiðla. Ásta Guðrún segir Pírata hafa verið „djöfulli hörð“ í stjórnarandstöðu til þessa og þó einhver hafi verið á undan þeim að senda út fréttatilkynningu þá þýði það ekki að flokkurinn fljóti með straumum, þingstörfin séu nýhafin og það komi að því að Píratar fái að njóta sín. Björn Leví Gunnarsson þingmaður segir flokkinn hafa „pönkast“ lang mest í stefnuræðum flokkanna, andmælt vinnubrögðum í kringum útgáfu skýrslunnar um aflandseignir og hafa beðið um umræðu um Trump:
Við erum búin að gera fjandans helling en hverjir komast í fréttatíma RÚV á hverju kvöldi? …ekki Píratar.