Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands býður flóttafólki frá Sýrlandi til móttöku á Bessastöðum síðdegis í dag. Er þetta er fyrsta sinn sem forseti Íslands heldur slíka móttöku fyrir flóttafólk. Ákvörðunin um þetta var tekin í hádeginu í dag, en upphaflega stóð til að Guðni ásamt Þorsteini Víglundssyni félagsmálaráðherra, Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og fulltrúum Rauða krossins tæki á móti Sýrlendingunum á Keflavíkurflugvelli.
Hópurinn sem kemur í dag er sá þriðji á þessu ári, en tekið var á móti hinum tveimur hópnunum á Keflavíkurflugvelli. Ekki er vitað á þessum tímapunkti hvort ákvörðunin um að hafa sérstaka móttöku á Bessastöðum tengist ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta um að banna komur fólks frá Sýrlandi til Bandaríkjanna, en ráðherrar og þingmenn á Íslandi hafa mótmælt þeirri tilskipun harðlega.
Forseti Íslands hefur ekki tjáð sig efnislega um ákvörðun Bandaríkjaforseta, en í heillaskeytinu sem Guðni sendi Trump þegar sá síðarnefndi tók við embætti fyrir skömmu minnti Guðni Donald á það sem hann kallaði sameiginleg gildi þjóðanna, tjáningarfrelsi, jafnrétti og jafnan rétt fólks óháð litarhafti og trú.