Flóttamannatilskipunin sem Donald TrumpBandaríkjaforseti undirritaði í gærkvöldi að íslenskum tíma tók strax gildi í dag. Næstu þrjá mánuði fá ríkisborgarar frá Sýrlandi, Íran, Írak, Lýbíu, Sómalíu, Súdan og Jemen ekki vegabréfaáritanir til Bandaríkjanna.
Landamæraeftirlit Bandaríkjanna framfylgir tilskipuninni.
Los Angeles Times greinir nú frá því að sjö einstaklingum á leið til Bandaríkjanna með landvistarleyfi þar hafi verið meinað að fara um borð í farþegaflugvél sem fór frá Kaíró til New York. Sex þeirra eru fjölskylda frá Írak og ein manneskja frá Jemen.
Svo er að sjá að farið verði af fullri hörku eftir tilskipun forsetans. Daily News skrifar að fólki frá ofangreindum löndum sem sat um borð í flugvélum á leið til Bandaríkjanna þegar forsetinn undirritaði tilskipunina verði snúið til baka. Einu gildi hvort fólkið hafi landvistarleyfi og svokölluð „græn kort“. Ef það er borgarar ofangreindra ríkja í Miðausturlöndum og Norður Afríku, þá eru Bandaríkin þeim lokað land frá og með í dag.