„Það er nú bara neyðarlegt að Sjálfstæðismenn leggi fram tillögu um opinbera rannsókn daginn eftir að Framsókn og flugvallarvinir leggja fram tillögu um úttekt. Munurinn á þessum tveimur tillögum er auðvitað sá að Sjálfstæðismenn eru að reyna fría sjálfa sig,“ segir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í samtali við Eyjuna um tillögu Sjálfstæðismanna um opinbera rannsókn vegna húss Orkuveitunnar. Hún sjálf lagði fram tillögu að úttekt á Orkuveituhúsinu í gær, í tillögu Guðfinnu myndi sérstök úttektarnefnd hafa það hlutverk að yfirfara viðbrögð og aðgerðir vegna skemmda á húsi og sérstaklega verði skoðað hvernig brugðist var við leka sem uppgötvaðist 2004 og 2009.
Sjá einnig: Tillaga um úttekt á OR húsinu
Sjá einnig: Fara fram á opinbera rannsókn vegna húss Orkuveitunnar
Í tillögu Sjálfstæðismanna er farið fram á opinbera rannsókn á tjóninu, skoðað verði hvernig staðið var að byggingu hússins á sínum tíma og hvaða ákvarðanir voru teknar. Í grein sem Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna skrifar í Morgunblaðið í dag segir hann Orkuveituhúsið á Bæjarhálsi vera ein birtingarmynd vinnubragða R-listans, sem samanstóð af Samfylkingunni, Vinstri grænum og Framsóknarflokknum, sem hafi gert fyrirtækið að vettvangi fjárfrekra gæluverkefna:
Hingað til hafa fjölmiðlar lítið fjallað um pólitíska ábyrgð í málinu þótt það sé mjög skýrt að hún liggur hjá þáverandi borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks og Vinstri grænna. Eini borgarfulltrúinn úr þeim meirihluta, sem enn situr í borgarstjórn, er Dagur B. Eggertsson, núverandi borgarstjóri,
segir Kjartan. Guðfinna segir að ákvörðun um byggingu húss vera eitt og viðhaldsleysi annað:
Ef hús lekur þá bíður maður ekki bara eftir því að hús eyðileggist heldur grípur inn í þó maður hafi verið á móti byggingu hússins tæpum 20 árum áður. Sjálfstæðisflokkurinn eru auðvitað að reyna slá ryki í augu fólks með því að reyna taka fókusinn af því sem máli skiptir í dag, þ.e. orsök lekans og afleiðingum hans og hvernig hefur verið við honum brugðist. Það er endalaust hægt að hafa skoðanir á þeirri ákvörðun að hafa byggt þetta hús en það sem máli skiptir í dag er tjónið sem orðið hefur vegna leka,
segir Guðfinna í samtali við Eyjuna. Hún segir nauðsynlegt að skipa sérstaka úttektarnefnd líkt og kemur fram í tillögu Framsóknarmanna, þar sem ljóst sé að tjónið á húsinu sé gríðarlegt þá þurfi að upplýsa hvernig staðið var að málum eftir að leki í húsinu kom upp í húsinu og raki og mygla uppgvötaðist í september 2015. Hvort hagsmunum Orkuveitunnar og eigenda hafi verið gætt í hvívetna:
Ólíkt Framsóknarflokknum hefur Sjálfstæðisflokkurinn haft aðkomu að borgarstjórn og stjórn Orkuveitunnar síðustu árin. Framsóknarflokkurinn hefur ekki verið með fulltrúa í stjórn OR síðan vorið 2010 enda var flokkurinn ekki í borgarstjórn 2010-2014 og á þessu kjörtímabili ákvað Sjálfstæðisflokkurinn að leggjast í lið með meirihlutanum í borgarstjórn og útiloka Framsóknarflokkinn í stjórn OR. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ættu því að leggja spilin strax á borðið og upplýsa hvernig þeir hafa brugðist við ástandi hússins frá því vorið 2010 í stað þess að reyna beina fókusnum að byggingu hússins til að afvegaleiða umræðuna.