Óli Halldórsson forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga býður sig fram til varaformanns Vinstri grænna á landsfundi flokksins sem verður haldið 6.-8. október næstkomandi. Áður hefur Edward Huijbens prófessor lýst yfir framboði til varaformanns, en enginn hefur tilkynnt um framboð til formanns enn sem komið er.
Sjá einnig: Edward býður sig fram til varaformanns
Segir Óli í yfirlýsingu til fjölmiðla í dag að hann vilji takast á við loftslagsmálin “af alvöru” og brúa bilið milli höfuðborgar og landsbyggðar:
Mikill hljómgrunnur er í samfélaginu fyrir skýrum áherslum Vinstri grænna og hefur hreyfingin fest sig í sessi sem eitt öflugasta stjórnmálaafl á Íslandi. Nú er lag til frekari sóknar fyrir hreyfinguna. Næsta vor fara fram sveitarstjórnarkosningar og er mikilvægt að flokkurinn nýti þau sóknarfæri sem hann hefur. Þá er einnig eðlilegt að í forystu flokksins veljist fólk með sæti í sveitarstjórn til að liðsinna við undirbúning kosninganna,
segir Óli. Óli var í 5. sæti á lista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi frá síðustu kosningum til Alþingis og hefur hann tekið sæti á þingi sem varaþingmaður. Hann er fæddur 1975 og er giftur Herdísi Þ. Sigurðardóttur, skólameistara Framhaldsskólans á Húsavík, eiga þau 4 börn.