Miðað við stöðuna eins og hún birtist í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar um fylgi flokka í Reykjavík þá er líklegt að borgarstjóratíð Dags B. Eggertssonar sé að ljúka þótt meirihlutinn kunni að halda í breyttri mynd eftir kosningarnar næsta vor. Þetta segir Egill Helgason fjölmiðlamaður í pistli sínum hér á Eyjunni. Könnun 365 sem greint var frá í morgun sýnir hrun meirihlutans í borginni, úr 61,7% samanlögðu fylgi í kosningunum 2014 í rúmlega 47% ef kosið yrði í dag. Sjálfstæðisflokkurinn færi úr 25,7% í 34,2%.
Möguleiki Sjálfstæðisflokksins liggur í usla Flokks fólksins
Fylgið hrynur af Samfylkingunni, flokkur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra færi úr 31,9% í 13,7%. Björt framtíð þurrkast nánast út og fengi flokkurinn aðeins 2,7% úr 15,6%. Vinstri grænir bæta þó verulega við sig, fer flokkurinn úr 8,3% í 17,8%. Framsóknarflokkurinn fer sömuleiðis úr 10,7% niður í 2,7%. Flokkur fólksins kemur þó sterkur inn með 7,1%. Segir Egill að möguleikar Sjálfstæðisflokksins að komast í meirihluta séu þó ekki sérstaklega miklir, en flokkurinn fengi 6 borgarfulltrúa og þurfti því tvo úr öðrum flokkum til að mynda meirihluta, liggja möguleikar flokksins kannski helst í því að Flokkur fólksins nái að gera nógu mikinn usla.
Hrun sósíaldemókrata
Gunnar Smári Egilsson leiðtogi Sósíalista og fyrrverandi ritstjóri segir á Fésbók að þetta sé merki um hrun sósíaldemókrata, þar sem samanlagt fylgi Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar fari úr 47,5% í 16,4%:
Þetta er hrun sósíaldemókratískra flokka. Kjarni meirihlutans í Reykjavík er Samfylkingin + Björt framtíð, akkúrat þesslags flokkar sem kjósendur um allan heim hafa verið að hafna. Fólk er búið að fá algjörlega nóg af stjórnmálaflokkum sem þykjast ætla að vinna fyrir almenning en gengur síðan aðeins erinda hinna ríku og voldugu, flokka sem eiga rætur að rekja til sósíalískrar baráttu síðustu aldar en hafa tekið upp nýfrjálshyggna efnahagsstefnu og manngildissýn,
segir Gunnar Smári. Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins segir hins vegar að könnunin gefi til kynna að fólk sé að opna augun:
Þessi könnun gefur vísbendingu um að fréttir undanfarna vikna um hörmulega stjórnarhætti í borginni undir forystu Dags B. Eggertsson borgarstjóra hafi opnað augu fleiri en áður fyrir nauðsyn þess að breyta um forystu í borginni. Betur má þó ef duga skal.
Sér engin merki um umbætur Pírata
Segir Björn á vefsíðu sinni það furðulegt hvað Vinstri grænir mælist með mikil fylgi þar sem flokkurinn sé taglhýtingur Dags borgarstjóra og S. Björns Blöndal formanns borgarráðs sem séu á öðru tungli þegar rætt sé um hagsmunamál borgarbúa:
Að 12,4% segist ætla að kjósa Pírata getur varla ráðist af því hvernig Halldór Auðar Svansson hefur haldið á málum. Til að fá hann að myndun meirihluta í borgarstjórn var stofnað sérstakt ráð undir formennsku hans sem átti að stuðla að bættum stjórnarháttum og auknu gegnsæi. Engin merki sjást um umbætur á þessu sviði,
segir Björn og bætir við:
Tveggja manna borgarstjórnarflokkur Framsóknarflokksins og flugvallarvina klofnaði á dögunum og er orðinn að engu meðal reykvískra kjósenda. Flokkur fólksins er óþekkt stærð á þessu stigi og nýtur kannski þess vegna þessa fylgis. Ekki verður sagt um Viðreisn að hún sé óþekkt stærð þótt spurning sé hvaða erindi flokkur sem er með evruna á heilanum á erindi í borgarstjórn Reykjavíkur.