Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins segir nauðsynlegt að ráðast í heildarendurskoðun laga um eignarétt og afnotarétt fasteigna þar sem núverandi löggjöf sé ógagnsæ og heimildir og takmarkanir erlendra aðila utan EES-svæðisins í fasteignum hér á landi því óskýrar. Greint var frá því í Fréttablaðinu í gær að kínverskir fjárfestar hefðu áhuga á að skoða kaup á jörðinni Neðri-Dal í Biskupstungum nálægt Geysi í Haukadal. Jörðin er 1.200 hektarar og er ásett verð 1,2 milljarður króna.
Lilja segir í pistli í Fréttablaðinu í dag að önnur ríki innan EES séu með takmarkað eignarhald erlendra aðila að landi og það ættum við einnig að gera:
Samkvæmt núgildandi lögum hafa aðilar á EES-svæðinu, einstaklingar og lögaðilar, sömu réttindi og íslenskir ríkisborgarar í þessum efnum. Hins vegar getur ráðherra vikið frá þessu skilyrði samkvæmt umsókn frá þeim sem hefur rétt til að stunda atvinnurekstur hér á Íslandi og vill öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni eða til að halda þar heimili. Í gildi var reglugerð sem meinaði erlendum aðila með lögheimili á EES-svæðinu að kaupa land nema að kaupin væru liður í að hann nýtti rétt sinn til að hafa á Íslandi lögmæta dvöl eða starfsemi,
segir Lilja. Fyrrverandi ráðherrar hafi skipað vinnuhópa sem hafi skilað gagnlegum tillögum sem hafi ekki verið hrint í framkvæmd. Lilja segir nauðsynlegt að marka skýrari stefnu þar sem auðlindir jarðarinnar fylgi með í kaupunum miðað við löggjöfina í dag. Horfa þurfi til þess að setja skýrar takmarkanir á fjárfestinum erlendra aðila utan EES-svæðisins en miða mætti við löggjöf á hinum Norðurlöndunum:
Ef ekkert verður aðhafst, þá myndast tómarúm sem fjársterkir aðilar nýta sér og of seint verður að koma í veg fyrir að náttúruauðlindir glatist úr eigu þjóðarinnar vegna tómlætis. Staðreyndin er sú að landfræðileg lega Íslands er afar verðmæt og mun aukast að verðmæti í framtíðinni meðal annars vegna aukins mikilvægis norðurslóða. Alþingi hefur verk að vinna til að gæta að hagsmunum Íslands.