„Hvernig sem menn sem lengi hafa fylgst með sveitarstjórnarmálum í þessu landi leita í hugskoti sínu finna þeir hvergi lakari vitnisburð um stjórnsýslu, fúsk og blekkingar við framkvæmdir fyrir offjár en í dæminu um hús Orkuveitunnar.“
Svona hefst leiðari Morgunblaðsins í dag, en gera má ráð fyrir að þar haldi Davíð Oddsson ritstjóri á penna. Vitnar hann í viðtal RÚV við Guðmund Þóroddsson fyrrverandi forstjóra OR þar sem hann sagði að rekja mætti ástand hússins til skorts á viðhaldi eftir hrun. Davíð segir að með þessu sé bætt við hneykslið með skringilegum útskýringum:
Maðurinn lætur eins og honum sé ókunnugt um að nýleg byggingin er talin ónýt, ekki vegna skorts á viðhaldi heldur vegna þess hvernig var staðið að byggingu hússins í hinni taumlausu óráðsíu sem átti sér stað.
Davíð segir að byggingin sjálf hafi borið dauða sinn í sér frá fyrsta degi:
Það hefur loks komið skýrt fram þrátt fyrir allan blekkingarleikinn af hálfu borgaryfirvalda. Fram hefur komið að búið er að kasta á bálið rétt tæpum 500 milljónum króna – FIMM HUNDRUÐ MILLJÓNUM KRÓNA – til að kanna vandamálið! Og niðurstaðan sem hafðist upp úr því dýra krafsi virðist hrópa framan í borgaryfirvöld að húsið sé því sem næst ónýtt. Hvað eina sem gripið verður til mun kosta almenning í borginni og á höfuðborgarsvæðinu milljarða króna til viðbótar og óvíst þó um árangur af öllu saman. Líklegast til varanlegs árangurs sé að rífa húsið!,
segir Davíð. Segir hann það kúnstugt að heyra viðbrögð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að það kæmi á óvart hvað tjónið væri ofboðslegt:
„Í hverju málinu á fætur öðru kemur þessi trúnaðarmaður borgarinnar eins og álfur út úr hól eða froskmaður úr foraði fjörunnar í Reykjavík þegar hann er spurður um stórmál sem undir hann heyra. Það liggur fyrir að borgarbúar voru beittir skipulögðum blekkingum og upplýsingum var haldið leyndum í skjóli þess að um „opinbert hlutafélag“ væri að ræða.“
Davíð segir að augljóst sé að setja verði af stað opinbera rannsókn á málinu:
Stærð þess, leynibrall frá fyrsta degi og hagsmunir almennings gera slíkt óhjákvæmilegt.