Nokkrir bakhjarlar styrktu Viðreisn um meira en lögbundnu hámarksfjárhæðina 400 þúsund krónur sem hver einstakur má styrkja flokka með. Hins vegar má samkvæmt lögum styrkja flokk um 800 þúsund krónur við stofnun, en Viðreisn var stofnuð í fyrra. Samkvæmt Fréttablaðinu í dag styrkti fjárfestirinn Helgi Magnússon og félög honum tengdum Viðreisn um 2,4 milljónir króna á síðasta ári. Helgi er einn stofnenda Viðreisnar og var stærsti einstaki bakhjarl flokksins. Styrkti Helgi flokkinn persónulega um 800 þúsund krónur og um aðrar 800 þúsund krónur í gengum félög sín Varðberg ehf. og Hofgarða ehf. Í gegnum Hofgarða ehf. er Helgi einn helsti eigandi Bláa lónsins og N1, styrkti hvort fyrirtækið Viðreisn um 400 þúsund krónur. Sigurður Arngrímsson, einn helsti viðskiptafélagi Helga, og félög honum tengdum styrktu svo Viðreisn um 1,2 milljónir króna.
Smári McCarthy þingmaður Pírata vakti athygli á málinu á Fésbók og sagði:
Úbbs. Þetta er heldur betur ólöglegt.
Smári bætti svo við:
Ég verð að viðurkenna að ég hef oft velt því fyrir mér hvaðan Viðreisn fékk allt fjármagnið sitt. Rekstur Pírata fyrstu árin var alltaf sniðinn við mjög þröngan stakk, og enn í dag leggjum við kapp á að reka flokkinn í plús, jafnvel ef það þýðir aðeins hófsamari kosningabaráttu.