Sigurður Haraldsson segir að hann hafi verið rekinn formlega úr Flokki fólksins vegna átaka innan flokksins um notkun Fésbókarsíðu Flokks fólksins. Segir Sigurður í samtali við Eyjuna að hann hafi verið í stjórn flokksins og unnið við að safna fé fyrir flokkinn í aðdragana þingkosninganna í fyrra. Hann hafi verið með aðgang á Fésbókarsíðu flokksins, sem 1.937 manns líkar við, og birt þar skilaboð um að hann íhugi að bjóða sig fram í fyrsta sæti í Kraganum í næstu Alþingiskosningum. Það ásamt ummælum, sem Sigurður segir sakleysisleg, inni í lokuðum Fésbókarhópi flokksins hafi orðið til þess að hann var áminntur af stjórn flokksins og að lokum formlega rekinn úr flokknum.
Ég var kallaður fyrir stjórnina vegna uppákomu, ég hafði birt langanir mínar um að ég væri til í að bjóða mig fram í fyrsta sæti í Kraganum í næstu kosningum. Þetta fór gríðarlega fyrir brjóstið á flestum í stjórn flokksins og var mér sagt að ég hefði engan stuðning stjórnar í svona væringar. Þeir væru að leita að þungavigtarfólki í framboð,
segir Sigurður. Færslan sem um ræðir hafi verið tekin út án þess að rætt hafi verið við hann, kallaði Sigurður það „ritskoðun“. Hann hafi einnig gert athugasemdir við opnunartíma skrifstofu flokksins, hún hafi ekki verið opin á tímum sem höfðu verið auglýstir:
Því var mjög illa tekið að ég, sem er varamaður í stjórninni, væri að skipta mér að opnunartímanum og ég var beðinn um að taka ummælin út, sem og ég gerði, svo vatt þetta svona upp á sig. Það var kallaður neyðarfundur stjórnar og var skrifstofunni lokað alla daga nema sunnudaga þegar það er vöfflukaffi.
Sigurður, sem var áður í Pírötum áður en hann gekk til liðs við Flokk fólksins, segir að hann hafi alls ekkert á móti Ingu Sæland formanni flokksins, en telur að fylgisaukning í skoðanakönnunum hafi haft slæm áhrif á hana: “Mér finnst eins og þetta sé að stíga henni til höfuðs. Þetta átti að vera flokkurinn þar sem barist væri gegn spillingu og allt væri uppi á borðum, en nú er flokkurinn byrjaður að flokka fólk.“
„Skemmd epli verða að finna sér annan farveg“
Guðmundur Ingi Kristinsson varaformaður Flokks fólksins staðfestir að Sigurði hafi verið vikið úr flokknum en það hafi verið það eina í stöðunni, Sigurður hafi skyndilega hætt að sinna málefnum flokksins og farið þess í stað að ráðast persónulega á einstaka flokksmenn:
Ég myndi segja að hann hefði sjálfur hætt í flokknum, honum var uppsigað við alla í flokknum og var bara með stæla við fólk innan flokksins í stað þess að einblína á málefni eldri borgara, öryrkja og fólki sem lifir í fátækt. Við reyndum að tala við hann, við báðum hann um að einbeita sér að málefnum flokksins, við áminntum hann og neyddumst svo til að víkja honum úr flokknum,
segir Guðmundur Ingi í samtali við Eyjuna, hann bætir við:
Það er leiðinlegast af öllu að víkja fólki frá, en þegar það heldur áfram aftur og aftur að ráðast á ákveðnar persónur þá verðum við að gera eitthvað.
Guðmundur hafnar því alfarið að ósætti tengt Sigurði geti leitt til klofnings Flokks fólksins:
Nei nei nei, hann er bara einn. Hann er einn með þessar skoðanir. Ég hef ekki orðið þess var að neinn í flokknum hafi tekið undir með honum. Það var vöfflukaffi hér á sunnudaginn og þar var enginn ósáttur. Skemmd epli verða að finna sér annan farveg.