„Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, flutti ræðu á flokksráðsfundi um helgina og fór vítt yfir hið pólitíska svið. Þar var fátt sem kom á óvart, sennilega helst það að Katrín upplýsti að hún hefði verið fylgjandi hvalveiðum þegar hún var ellefu ára gömul. Katrín hamraði mjög á andstöðu sinni gegn einkarekstri og lét fá svið mannlífsins undanskilin í þeirri umfjöllun. Engum sem les ræðu Katrínar dylst að hún telur stórvarasamt að einkaaðilar komi nærri rekstri fyrirtækja. Þá er ljóst að hún sér samsæri auðvaldsins í hverju horni, til að mynda í því að illa innrættar hægristjórnir haldi opinberum rekstri í fjárhagslegri spennitreyju til að geta þvingað í gegn einkarekstur á sviðum þar sem hið opinbera hafi brugðist!“
Svona hefst leiðari Morgunblaðsins í dag, gera má rá fyrir að þar haldi Davíð Oddsson ritstjóri á penna og vandar hann Katrínu Jakobsdóttur formanni Vinstri grænna ekki kveðjurnar. Segir hann að fátt hafi komið á óvart í ræðu Katrínar á flokksráðsfundi Vinstri grænna um helgina, hún sé í forneskjunni og slái um sig með slagorðum úr fortíðinni:
Þá er hún eindreginn talsmaður hærri skatta og saknar þess bersýnilega að Jóhanna og Steingrímur skuli hafa misst umboðið til að halda áfram á skattahækkunarbrautinni. Og hún er, eins og forverar hennar í forystu vinstrihreyfingarinnar síðustu öldina eða svo, sannfærð um gildi stéttarbaráttu til þjóðfélagsumbóta og telur að réttlætið hafi sjaldan náðst fyrr en eftir „langa og stranga verkalýðsbaráttu“,
segir Davíð og bætir við:
En hún er ekki bara í forneskjunni, hún víkur líka að flóttamannavandanum sem dynur á Evrópu þessi misserin. Af honum dregur hún sérkennilegar ályktanir. Hún segir öfgahreyfingar sem ali á ótta við „útlendinga og ólíka menningarheima“ hafa vaxið undanfarin ár. Og hún segir að hér á landi megi „sjá sömu orðræðu þar sem reynt hefur verið að stilla upp fátæku fólki og hælisleitendum sem andstæðingum sem berjist um þær krónur sem eru til í kassanum“.
Segir Davíð að með þessu sé Katrín að viðurkenna að óheftur straumur flóttamanna leggi fjárhagslegar byrðar á þjóðir:
Óraunsætt tal af þessu tagi gerir minna en ekkert gagn því að vandinn er fyrir hendi og milljarðar króna sem fara til flóttamanna verða ekki nýttir í annað.
Davíð segir svo að lokum:
Þó að formaður vinstri grænna slái um sig með slagorðum úr fortíðinni dugar það ekki nema ef til vill til að fá klapp á flokksráðsfundi. Alvörustjórnmálamenn verða að treysta sér í alvöru umræður, líka um erfið og viðkvæm mál.