Stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna hefur bæst í hóp fjölmargra annarra Framsóknarmanna og mótmælir harðlega ummælum Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík, er tengjast menntun barna hælisleitenda hér á landi. Í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur fyrr í vikunni talaði Sveinbjörg um sokkinn kostnað vegna flóttabarna. Greindi hún frá því að sú hugmynd hefði komið upp að stofna sér skóla fyrir börn flóttafólks. Hafa þessi tvö ummæli Sveinbjargar vakið töluverða athygli og hefur verið sagt að hún sé með þessu að sína andúð í garð flóttafólks og hælisleitenda.
Sjá einnig: Framsóknarmenn skamma Sveinbjörgu
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar og Flugvallarvina lýsti því yfir að hún væri ósammála Sveinbjörgu Birnu. Sveinn Hjörtur Guðfinnsson formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur sagðist einnig vera ósammála Sveinbjörgu, og undir það tók Lilja Alfreðsdóttir þingmaður flokksins. Í yfirlýsingu frá stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna í dag er ummælum Sveinbjargar Birnu mótmælt harðlega:
Stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna mótmælir harðlega ummælum Sveinbjargar Birnu oddvita Framsóknar og flugvallarvina er tengjast menntun barna hælisleitenda hér á landi og vísar sambandið til ályktana flokksþings. Þar segir meðal annars:
,,Framsóknarflokkurinn styður mannréttindi, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Hafna á hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólk“, einnig segir: ,,Fjölbreyttur bakgrunnur fólks leiðir til betri og samkeppnishæfari vinnumarkaðar og ólík færni fólks ýtir undir framþróun atvinnulífs og skilar þannig árangri fyrir samfélagið allt“.
Ungt Framsóknarfólk styður móttöku hælisleitenda á Íslandi. Mikilvægt er að sýna ábyrgð í alþjóðasamfélaginu og bjóða þá sem búa við stríðsástand eða kúgun velkomna. Einnig þarf að flýta málsmeðferð hjá hælisleitendum. Samstíga því viljum við styðja betur við aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi.
Aldrei má mismuna börnum undir neinum kringumstæðum.