Enn alvarlegri hætta stafar þó af fráveitumálum Reykjavíkur því margfalt meira magn plastagna fer út í sjó úr skólphreinsistöðvum borgarinnar heldur en frá slíkum stöðvum í öðrum borgum Norðurlanda. Nýleg norræn rannsókn sýndi að 6,3 milljónir plastagna berast úr skólphreinsistöðinni við Klettagarða á hverri klukkustund. Plastagnir eru alvarleg ógn við lífríki heimshafanna og Reykjavík ætti sem höfuðborg sjávarútvegsþjóðar að vera í fararbroddi við verndun lífríkis hafsins. Lítið hefur þó farið fyrir umbótum í þessu efni.
Ekki hefur skort á heitstrengingar vinstrimeirihlutans í borginni þegar kemur að loftslagsmálum. Nýlegar mælingar Ólafs Kr. Guðmundssonar umferðarsérfræðings sýna aftur á móti að Reykjavíkurborg sjálf er mesti mengunarvaldur hvað umferð varðar með miklum töfum. Samkvæmt rannsóknum Ólafs eykst eyðsla bílvéla um ríflega 131% í umferðarteppum í borginni samanborið við svæði þar sem akstur en hindrunarlaus. Á sama tíma hyggjast borgaryfirvöld víðs vegar hægja á umferð, en þar með mun útblástur aukast enn frekar. Þau vinna því beinlínis gegn yfirlýstum markmiðum.

Þá berast ítrekað fréttir af miklu magni svifryks í andrúmslofti í borginni sem reglulega mælist langt yfir heilsuverndarmörkum. Þýskir sérfræðingar bentu á það í fyrra að malbik er jafnan ekki nógu heitt þegar það er lagt á götur borgarinnar og í ofanálag er notað íslenskt grjót í malbik, þegar harðari bergtegundir, eins og kvarts, ættu miklu betur við. Þá er slitlag hér mun þynnra en alþjóðlegir staðlar mæla fyrir um. Þetta lélega malbik er laust í sér, verður hæglega fyrir frostskemmdum, brotnar upp og rykið fýkur út í andrúmsloftið. Dr. Larry G. Anderson, bandarískur sérfræðingur um þessi mál, benti á það á dögunum að svifryksmengun í Reykjavík mælist meiri en í stórum iðnaðarborgum vestanhafs. Sú einfalda aðgerð að þrífa götur reglulega kynni að draga verulega úr svifryksmengun, en borgaryfirvöld hafa ekki einu sinni ljáð máls á auknum þrifum og skellt skolleyrum við öðrum þeim ábendingum sem hér eru nefndar.
Önnur loftmengun snýr einnig að borgaryfirvöldum og það er losun brennisteinsvetnis frá virkjunum á Hellisheiði. Langtímaáhrif þess í lágum styrk á heilsu fólks eru ekki vel rannsökuð, en styrkur þess í andrúmslofti nærri borgarmörkunum hefur jafnvel mælst nærri heilsverndarviðmiði Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Vísindamenn á borð við Sigurð Þór Sigurðsson, lungnalækni og sérfræðing í atvinnu- og umhverfissjúkdómum, hafa bent á að þetta aukna magn brennisteinsvetnis í andrúmslofti kunni að hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir heilsu fólks til langs tíma litið. Lítið ber þó á aðgerðum borgaryfirvalda í þessu efni.
Almenn umhirða borgarlandsins er svo kapítuli út af fyrir sig. Sláttur á opnum svæðum borgarinnar og við umferðargötur hefur til að mynda verið langt frá því viðunandi síðan vinstrimenn tóku við völdum árið 2010. Rusl blasir við hvert sem litið er. Borgararnir keppast við að hirða lóðir sínar en þegar komið er út fyrir þær blasir við óræktin á borgarlandinu, hvort sem það eru óslegin tún eða úr sér vaxið illgresi sem kæfir jafnvel runna.
Og sorphirðugjöld hækka ár frá ári á meðan þjónustu Reykjavíkurborgar hrakar stöðugt. Sú var tíð að sorpílát voru tæmd vikulega. Nú líður hálfur mánuður milli losunar og ekki nema vonlegt að víða blasi við yfirfullar tunnur við heimili borgarbúa. Lífsskilyrði holræsarottunnar í Reykjavík hafa á sama tíma batnað verulega. Annað meindýr, minkurinn, virðist einnig fjölga sér hratt innan borgarmarkanna.
Ekki er einasta holur hljómur í skrúðmælgi Dags B. Eggertssonar og vinstrimeirihlutans í umhverfismálum heldur er um slík öfugmæli að ræða að leitun er að öðru eins. Ekki þarf frekari vitna við. Reykjavíkurborg ber með réttu nafnbótina versti umhverfissóði landsins.