„Borgarstjóri tekur ekki að sér að flytja önnur tíðindi en hann telur sér til framdráttar. Gerist eitthvað á annan veg er leitað að sökudólgi. Oft er það ríkið í þessu tilviki Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.“
Þetta segir Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins í grein á vefsíðu sinni, heldur hann áfram að gagnrýna Dag B. Eggertsson borgarstjóra harðlega vegna bilunarinnar í skólphreinsistöðinni við Faxaskjól, sem Björn segir vera mengunarslys. RÚV greindi fyrst frá málinu í síðustu viku en þá höfðu 750 lítrar á sekúndu af óhreinsuðu skólpi runnið út í fjöruna við Vesturbæ Reykjavíkur í marga daga. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur sagði að málið hefði verið rætt á stjórnarfundi OR meira en viku fyrr. Björn segir það hafa verið markvissa ákvörðun að þagga málið niður:
Síðan hefur komið í ljós að það var markviss ákvörðun þeirra sem bera ábyrgð á þessum rekstri á vegum Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar að þegja um málið. Það átti ekkert að skýra almenningi frá þessari mengun þótt hún ykist sólarhringum saman og þrátt fyrir skýr lagaákvæði um tilkynningarskylduna,
segir Björn. Segir hann að Dagur og stuðningsmenn hans hafi svo skellt skuldinni á Kjartan, þegar hann hafi frétt fyrst af þessu í frétt RÚV á sama tíma og borgarstjóri. Það sé borgarstjóri sem beri ábyrgðina:
Eins og hér hefur verið sagt ber Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lokaábyrgð í þessu máli bæði sem embættismaður og kjörinn fulltrúi borgarbúa. Hann er auk þess formaður hafnarstjórnar sem eykur enn ábyrgð hans á öllu er varðar ástand mála í Faxaflóa.
Nú þurfi að bíða eftir því hvort hreinsað verði til í fjörunni, segir Björn að það þurfi einnig að hreinsa til í kringum borgarstjóra því hann geri ekki neitt nema það sem honum þykir skemmtilegt:
„Þetta alvarlega atvik hefur leitt í ljós brotalöm innan borgarkerfisins þar sem boðleiðir er í molum og smákóngaveldi hefur tekið við af eðlilegri stjórnsýslu. Borgarstjóri tekur ekki að sér að flytja önnur tíðindi en hann telur sér til framdráttar. Gerist eitthvað á annan veg er leitað að sökudólgi. Oft er það ríkið í þessu tilviki Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.“
Aum staða borgarstjóra
Sigurjón M. Egilsson ritstjóri Miðjunnar tekur í sama streng og Björn, segir hann á vef sínum að staða borgarstjóra sé aum:
„Sú staðreynd að borgarstjórinn hafi komist hjá að vita, að hluti fjöru borgarinnar væri þakin saur og öðrum viðbjóði í langan tíma, er honum til minnkunnar. Borgarstjórinn sem enginn hirðir um að láta vita af stórkostlegu mengunarslysi í borgarlandinu er í erfiðum málum. Slíkur nýtur hið minnsta ekki mikillar virðingar,“
segir Sigurjón. Segir hann málið vera til skammar og sé hvalreki á fjörur millihlutans á borginni:
Nú hætta þeir, allavega um stundarsakir, að tala um áttfaldar akgreinar um allt og gatnamótum á mörgum hæðum og munu þess í stað nudda meirihlutanum upp úr fjörunni við Faxaskjól. Dagur þarf að byrja á að gera sér grein fyrir sinni aumu stöðu þegar hann er ekki einu sinni upplýstur um alvarlegt mengunarslys í miðri borgarbyggðinni.